Skip to main content

Foreldrar hvattir til að fylgjast með fréttum yfir helgina

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 31. jan 2025 14:47Uppfært 31. jan 2025 14:48

Stjórnendur fræðslumála hjá Múlaþingi og Fjarðabyggðar fylgjast eins og aðrir með gangi viðræðna milli samninganefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands. Verkföll hefjast í Egilsstaðaskóla og leikskólanum Lyngholti á Reyðarfirði að óbreyttu um helgina.


Formlega eiga verkföllin að hefjast á miðnætti en áhrifin birtast ekki fyrr á mánudag. Ríkissáttasemjari lagði í gær fram innanhússtillögu sem deiluaðilar hafa frest fram til klukkan 13 á morgun að svara. Hófleg bjartsýni virðist um árangurinn.

Á Lyngholti er hluti starfsfólks í Félagi leikskólakennara þannig ekki fara allir starfsmenn í verkfall. Þórður Vilberg Guðmundsson, sviðsstjóri mannauðs- og umbótasviðs Fjarðabyggðar, segir að búið sé að gera ákveðnar ráðstafanir en ekki sé fyllilega ljóst hversu víðtækar lokanir verði. Enn sé vonast til að deiluaðilar nái saman.

Fjarðabyggð sendi í gær frá sér tilkynningu þar því var beint til foreldra að fylgjast með fréttum og tilkynningum um framhaldið á heimasíðum Lyngholts og Fjarðabyggðar. Sömu tilmæli eru til foreldra í Egilsstaðaskóla.

Þar nær verkfallið til grunnskólakennara, deildarstjóra og náms- og starfsráðgjafa. Skólastjóri, aðstoðarskólastjóri, stuðningsfulltrúar, skólaliðar og starfsfólk sem ekki kennir fara ekki í verkfall. Þess vegna verður frístund áfram opin á venjulegum tíma og hægt að óska eftir þjónustu sérfræðinga sem ekki eru í Kennarasambandinu. Tónlistarkennarar verða heldur ekki í verkfalli þannig nemendur geta mætt í tónlistartíma. Þess utan er nemendum óheilt að mæta í skólann.

Verkfallið í Lyngholti er ótímabundið. Í Egilsstaðaskóla hefur verið boðað til tímabundins verkfall, sem stendur út nær allan febrúar.