Foreldraverðlaun Heimilis og skóla á Djúpavog
Foreldrafélag Djúpavogsskóla hlaut í dag foreldraverðlaun samtakanna Heimils og skóla fyrir fræðslu til foreldra og nytjamarkaðinn Notó.Það var Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sem afhenti verðlaunin við athöfn í Safnahúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík en þau voru nú afhent í 25. sinn. Sérstök dómnefnd fer yfir þær tilnefningar sem berast og velur vinningshafana.
Foreldrafélag Djúpavogsskóla fékk aðalverðlaunin, Foreldraverðlaunin að þessu sinni. Að auki var Dugnaðarforkur Heimilis og skóla útnefndur og Hvatningarverðlaun veitt.
Haustið 2018 fékk Foreldrafélag Djúpavogsskóla húsnæði hjá Djúpavogshreppi og setti á laggirnar nytjamarkaðinn Notó. Enginn nytjamarkaður eða móttaka heilla hluta var fyrir á Djúpavogi.
Markaðurinn er opinn einu sinni í viku. Nemendur skólans raða upp vörum, verðleggja og afgreiða. Einn bekkur sér um hverja opnun undir leiðsögn tveggja foreldra.
Tekjur af markaðinum rennur beint til barnanna og hefur meðal annars nýst til að fjármagna útirólur, leikrit, fyrirlestra og stutt ferðalög.
Að auki hefur foreldrafélagið undanfarin ár boðið upp á örnámskeið, fyrirlestra og fræðslu sem kallast Smiðjur. Haldin er svokölluð Smiðjuhelgi þar sem boðið er upp á einn til tvo viðburði frá utanaðkomandi aðila þar sem foreldrar og íbúar á Djúpavogi eru virkjaðir.
Í tilkynningu segir að það hafi tekist með eindæmum vel og frábær stemming skapast meðal barna og foreldra á helginni sem sé orðinn fastur viðburður í félagslífi skólans.
Frá verðlaunaafhendingunni í dag. Í tilkynningu Heimilis og skóla segir að því miður hafi fulltrúi Djúpavogsbúa forfallast á síðustu stundu og því ekki getað tekið við verðlaunum. Framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, Hrefna Sigurjónsdóttir og Eydís H. Njarðardóttir hlupu í skarðið og tóku við verðlaunum. Í tilkynningunni er tekið fram að þær báðar, sem og ráðherrann, hafi komið á Djúpavog. Mynd: MOTIV