Formaður svæðisfélags segir sig úr VG: Flokkurinn stefnir á að setja mig á hausinn

asmundur_pall_hjaltason.jpgÁsmundur Páll Hjaltason, sem verið hefur formaður svæðisfélags Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs á Austfjörðum undanfarin tvö ár hefur sagt sig úr flokknum. Hann segir flokkinn í dag allt annan en þann sem hann studdi á sínum tíma.

 

Ásmundi, sem var í níunda sæti á lista flokksins í Norðausturkjördæmi í seinustu þingkosningum, finnst flokkurinn hafa gefið of mikið eftir í stefnumálum sínum, til dæmis með umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Skattahækkanir leggjast einnig illa í hann.

„Ég get ekki sinnt þessari samfélagsþjónustu fyrir flokk sem hefur það efst á sinni stefnuskrá að setja mig á hausinn. Þetta lið poppar upp rétt fyrir kosningar en þess á milli verð ég ekki mikið var við Steingrím J. né Þuríði svo dæmi séu tekin,“ sagði Ásmundur í samtali við Austurgluggann.

Hann segir mikla ólgu innan flokksins, víðar en meðal hinna „svokölluðu þremenninga.“

Hrafnkell F. Lárusson, formaður svæðisfélags VG á Héraði, Borgarfirði eystri og Seyðisfirði, segir stöðu flokksins þar sterka. Hann hafi ekki orðið var við annað en mikla samstöðu eftir að félagsmenn stillti saman strengi sína á seinasta ári.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar