Skip to main content

Formlega gengið frá færslu fjarvarmaveitu Seyðisfjarðar frá RARIK til HEF-veitna

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. feb 2025 14:47Uppfært 21. feb 2025 14:48

Þó HEF-veitur hafi yfirtekið rekstur fjarvarmaveitu Seyðfirðinga þann 1. janúar síðastliðinn úr höndum RARIK var sá gjörningur formlega staðfestur með undirskriftum og handabandi í morgun.

Þar með var langþráður punktur settur við ferli sem hefur meira og minna verið í gangi allar götur frá sumrinu 2017 þegar forsvarsmenn RARIK greindu frá þeim fyrirætlunum sínum að hætta rekstri fjarvarmaveitunnar innan tveggja ára. Rekstur slíkrar veitu væri brostinn vegna framboðs á ótryggri orku sem kallaði á verulega hækkun orkuverðs sem yrði þá um leið ósamkeppnishæft við aðra húshitunarkosti. Í þokkabót var þá þegar orðin mikil viðhaldsþörf á dreifikerfi veitunnar sem kostað hefði mikla fjármuni. Forsendur veitunnar væri því brostnar.

RARIK hafði nokkuð fyrir þann tíma gert ítrekaðar tilraunir til að finna jarðhita á Seyðisfirði án árangurs en með samtali tókst að fá RARIK til að halda rekstrinum áfram meðan engar aðrar auðveldar lausnir væru fyrir hendi til húshitunar fyrir Seyðfirðinga. Allar götur fram til síðustu áramóta þegar HEF-veitur, sem eru að fullu í eigu Múlaþings, tók við keflinu og mun reka kerfið eftirleiðis.

Forgangsorka skipti sköpum

Lykilbreytan í því að HEF-veitur, fyrir hönd Múlaþings, tóku við lyklavöldum í veitunni um áramótin er ákveðinn tímamótasamningur sem RARIK náði við Landsvirkjun gegnum Orkusöluna, um kaup á forgangsorku næstu fjögur árin. Sú orka vissulega dýrari en ótrygg raforka en slíkt tryggir líka að ekki á að vera þörf á að keyra veituna upp með olíu þann tíma sem samningurinn nær til. Það þurfti til dæmis veturinn 2023 til 2024 að keyra veituna á olíu um fjögurra mánaða skeið sem hækkaði rekstrarkostnaðinn verulega.

Með öðrum orðum fær nú fjarvarmaveitan forgang á orku að minnsta kosti í fjögur ár þó ekki sé gefið að hægt verði að endurnýja slíkan samning að þeim tíma liðnum samkvæmt upplýsingum Austurfréttar.

Ánægja með tímamótin

Nýr sveitarstjóri Múlaþings, Dagmar Ýr Stefánsdóttir, skrifaði undir samninginn í dag með þeim Aðalsteini Þórhallssyni, framkvæmdastjóra HEF-veita og Magnúsi Þór Ásmundssyni, forstjóra RARIK. Öll komu þau inn á í ræðum sínum af þessu tilefni að gleðilegt væri að þessar lyktir hefðu náðst eftir þetta langan tíma. Þá kom fram að tímasetningin væri líklega mjög góð með tilliti til mikilla tækniframfara í þessum geira sem ætti á allra næstu árum að nýtast nýjum rekstraraðilum til að lækka kostnað við reksturinn töluvert meira en raunin er í dag.

Fyrir sitt leyti óskaði Magnús Þór Múlaþingi til hamingju með áfangann og sagði ljóst að orkuöryggið næstu fjögur árin gæfi nýjum rekstraraðilum andrrými til að betrumbæta veituna og þjónustuna alla.

„Auðvitað hefði þetta orðið flóknara ef ekki hefðu náðst þessir samningar um trygga orku til að keyra veituna en það hefði snúist um aðstöðu sveitarfélagsins til að taka slíkt á sig. Þetta samtal okkar og sveitarfélagsins staðið yfir linnulítið frá árinu 2017 eða löngu áður en til þessa nýja samnings kom. Nú eru forsendur töluvert breyttar og að mínu mati mun betri fyrir nýjan rekstraraðila. Í raun og veru gæti tímasetningin vart verið betri fyrir þessar breytingar.“

Dagmar Ýr, sveitarstjóri, sagðist afar ánægð með þessa niðurstöðu: „Þetta er búið að vera langt og erfitt ferli en mjög gleðilegt að við séum að ljúka þessu hérna í dag og eyðum þar með mikilli óvissu sem var uppi fyrir sveitarfélagið þannig að ég held að það geti allir fagnað þessum málalokum. Nú horfum við áfram veginn og ég fullviss um að reksturinn verður í góðum höndum hjá hitaveitunni okkar.“

Aðalsteinn Þórhallsson frá HEF og Magnús Þór Ásmundsson frá RARIK voru báðir mjög sáttir við breytingarnar og samsinna um að sökum tækniframfara undanfarið séu líkurnar góðar á að hægt verði að reka fjarvarmaveituna vandræðalítið næstu árin. Mynd AE