Frægur erlendur leikari í Stuðlagili

Framleiðslufyrirtækið Truenorth getur ekki staðfest hvaða leikari var við tökur í Stuðagili um síðustu helgi, en gilið var lokað fyrir almennri umferð í tvo daga vegna þess. Framleiðandi hjá Truenorth segir svona stórt verkefni skipta máli á þessum tímum.

Ásta H. Stefánsdóttir, framleiðandi hjá Truenorth, staðfestir að frægur erlendur leikari hafi verið þar við tökur en getur ekki staðfest hver var þar á ferð, né heldur hvaða verkefni var um að ræða eða hvenær það verður frumsýnt. Hún geti hins vegar upplýst að um eins konar ferðaheimildaþætti hafi verið að ræða.

„Við getum einnig staðfest það að þekktur erlendur leikari var í upptökum við Stuðlagil og og hefur vafalaust heillast mjög af staðnum eins og við hin,“ segir Ásta Hrönn Truenorth í svari við fyrirspurnum Austurfréttar.

Sögur hafa verið uppi um að hinn þekkti erlendi leikari hafi verið Will Smith sem hafi komið á svæðið á laugardag með þyrlu sem lenti í landi Klaustursels við austanvert gilið.

Gilið var lokað fyrir almennri umferð síðasta föstudag og laugardag vegna kvikmyndatökunnar og sáu björgunarsveitir um gæslu á svæðinu.

Starfsliðið, sem taldi 80-100 manns þegar mest var, gisti á Egilsstöðum. Unnið var eftir sóttkví B sem þýðir að þeir starfsmenn sem komu erlendis frá höfðu heimild til að ferðast fram og til baka, dvelja og starfa svo framarlega sem þeir blönduðust takmarkað öðrum.

Mikilvægt verkefni

Ásta segir mikilvægt að fá verkefni sem þetta inn í landið nú. „Það er alltaf gríðarlega mikilvægt að fá verkefni að þessu tagi inn til landsins, ekki síst núna á þessum vægast sagt skrýtnu tímum. Það varðar ekki bara framleiðsluumhverfið heldur er þetta mikil landkynning sem jafnframt veitir innspýtingu í ferðaþjónustufyrirtæki á meðan tökunum stendur.“

Hún telur tækifæri til að fá inn enn fleiri kvikmyndatökuverkefni en kvikmyndagerðarfólk hefur að undanförnu þrýst á að endurgreiðslur til kvikmyndagerðar verði hækkaðar úr 25 í 35%. Meðal þeirra sem talað hafa fyrir því er Leifur Dagfinnsson, eigandi Truenorth.

„Eins og hann hefur bent á þá myndi hækkun endurgreiðslunnar gera útslagið í að Ísland yrði samkeppnishæft við önnur lönd, til dæmis Írland. Þá gætum við boðið upp á betri aðstöðu, stærri kvikmyndaver og fleira sem yrði erlendum viðskiptavinum hvatning til að mynda bæði inni og úti. Þá yrði eftirvinnslan öll hér heima þannig að verkefnin væru unnin hérlendis frá A til Ö.

Við þurfum vart að spyrja að leikslokum hve miklar tekjur slík verkefni myndu skilja eftir sig í landinu því oft er að ræða um hundruð milljóna, jafnvel milljarði, í einu verkefni.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar