Framkvæma nánari úttekt á húsnæði Nesskóla
Bæjarráð Fjarðabyggðar hefur falið skipulags- og framkvæmdasviði sveitarfélagsins að gera nýja úttekt á húsnæði Nesskóla en þar hefur orðið vart við vatnsleka í kjallara eldri byggingar skólans.
Óskaði bæjarráð eftir úttektinni um miðjan síðasta mánuð og sú vinna þegar hafin. Sjónum skal sérstaklega beint að gólfplötu kjallara eldri byggingar skólans en vitað er af skemmdum á þeirri plötu.
Ekki er talið að um mygluskemmdir sé að ræða en bæði árin 2016 og 2021 fannst mygla innan veggja skólahúsnæðisins svo fara þurfti í aðgerðir í kjölfarið.
Kjallararýmið sem hér um ræðir er ekki í formlegri notkun svo ekki kemur til neinna truflana á skólastarfi vegna þessa að svo stöddu. Skipulags- og framkvæmdanefnd mun skila niðurstöðum af sér sem allra fyrst og munu þær ráða til hvaða aðgerða verður til gripið verði talin þörf á því.