Skip to main content

Freista þess að staðsetja vinnsluholu með tveimur nýjum borunum á Djúpavogi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. feb 2025 09:53Uppfært 05. feb 2025 09:59

Af hálfu HEF-veitna er nú verið að undirbúa borun á tveimur rannsóknarholum til viðbótar á jarðhitasvæðinu við Djúpavog og með því freista þess að staðsetja nákvæmlega vinnsluholu til framtíðar fyrir svæðið.

HEF-veitur fengu til starfans hið austfirska borfyrirtæki Borbræður sem státa af bornum Bláma en þeir munu að uppsetningu lokinni hefja borun á tveimur nýjum rannsóknarholum. Sú fyrri verður 200 metra djúp en fara skal 400 metra niður við seinni borun.

Þessar boranir á svæðinu verða þær fyrstu sem gerðar verða í kjölfar allnákvæmra mælinga sem sérbúinn tækjabíll Íslenskra orkurannsókna (ISOR) framkvæmdi síðastliðið haust. Þær mælingar sýndu vissulega nægt heitt vatn á því svæði sem rannsakað var eins og sést á meðfylgjandi þrívíddarlíkani.

Vonast er til að með tilraunaborununum nú fáist enn betri upplýsingar sem síðan má nota til að uppfæra það líkan sem nú liggur til hliðsjónar og þannig fá enn nákvæmari upplýsingar sem svo nýtast til geta í kjölfarið borað niður á réttan stað með nægu heitu vatni fyrir þorpið og nærsveitarmenn.

Þrívíddarlíkan ISOR sýnir glöggt töluverðan jarðhita undir Djúpavogi en flókið er þó að finna allra heppilegasta staðinn til borana. Mynd ISOR