Frekar dræm kjörsókn

Kjörsókn í sveitarstjórnarkosningum í nýju sameinuðu sveitarfélagið á Austurlandi hefur verið fremur dræm, einkum á Fljótsdalshéraði.

Fyrstu kjördeildinni, á Borgarfirði, var lokað klukkan fimm í dag. Þar kusu 44% á kjörstað en kjörsókn fór upp í 80% með utankjörfundaratkvæðum.

Á Djúpavogi lokaði klukkustund síðar. Endanlegar tölur um kjörsókn liggja ekki fyrir en áætlað er að 65% hafi kosið á kjörstað. Með utankjörfundaratkvæðum má búast við að kjörsóknin hafi verið yfir 70%.

Opið er á Egilsstöðum og Seyðisfirði til klukkan 22 í kvöld. Á Seyðisfirði höfðu 47% kosið á kjörstað klukkan sex. Á Fljótsdalshéraði var hlutfallið ekki nema 35%. Þar sem kjósendur þar eru um 75% allra á kjörskrá dregur það heildarkjörsókn í dag niður í tæp 40%.

Utankjörfundaratkvæði eru ekki inni í þeirri heildartölu. Bjarni G. Björgvinsson, formaður yfirkjörstjórnar, segir töluvert af utankjörfundaratkvæðum á Héraði og út frá þeim megi reikna að kjörsókn sé komin yfir 50%.

Hann segir kjörsóknina hafa gengið í bylgjum, nokkur aðsókn hafi verið seinni partinn en dottið niður um kvöldmat. Hann segir kosninguna í dag hafa gengið snurðulaust fyrir sig.

Ekki er von á tölum fyrr en upp úr miðnætti í kvöld og engar millitölur verða gefnar út. Byrjað verður að telja þegar atkvæði frá Seyðisfirði koma í hús á Egilsstöðum þar sem yfirkjörstjórn hefur aðsetur. Ekki er búist við að það verði fyrr en um klukkan 23. Gert er ráð fyrir að tilkynna úrslit úr kjöri til heimastjórna og sveitarstjórna um leið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar