Skip to main content
Dýrara og seinlegra að vinna að endurbótum að vetrarlagi

Fresta fyrirhugaðri lokun Selárlaugar vegna viðhalds um óákveðinn tíma

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. nóv 2025 15:44Uppfært 04. nóv 2025 15:54

Vopnafjarðarhreppur hefur, að höfðu samráði við verktakann, frestað lokun Selárlaugar um óákveðinn tíma.

Upphaflega stóð til að lauginni yrði lokað þann 1. október í allt að sex mánaði en sú dagsetning var síðar færð til 1. nóvember vegna anna verktakans. Sú dagsetning mun ekki standast heldur og verður laugin opin eins og venjulega þangað til ný dagsetning lokunar verður ákveðin.

Sú ákvörðun er að sögn Valdimars O. Hermannssonar, sveitarstjóra, tekin að höfðu samráði við verktakann bæði vegna anna viðkomandi en ekki síður sökum þess að það viðhald og endurnýjun sem þörf er á á sundlaugarsvæðinu er töluvert dýrari og tímafrekari að vetrarlagi en á vor- eða haustmánuðum.

„Eftir fyrsta verkfund með öllum hlutaðeigandi þá lá það fyrir að verkið yrði bæði erfiðara og dýrara í framkvæmd yfir háveturinn heldur en á vor- eða haustmánuðum. Þetta var því okkar ákvörðun í góðu samráði við verktakann og aðra aðila.

Það brýnasta á sundlaugarsvæðinu er að hefja endurgerð þjónustuhússins sem er vel komið á tíma en í fjárhagsáætlun Vopnafjarðarhrepps var gert ráð fyrir um 70 milljóna króna framlagi til fyrsta hluta þess verks á þessu ári og sambærilegri upphæð á því næsta.

Þau framlög, sem og ný framkvæmdaáætlun fyrir laugarsvæðið, verður ákveðið á næstu vikum og þá í tengslum við nýja fjárhags- og framkvæmdaáætlun sveitarfélagsins á nýju ári.