Fréttaskýring: HB Grandi gaf og HB Grandi tók
Að morgni þriðjudags var boðað til starfsmannafundar hjá HB Granda á Vopnafirði. Tilefnið var að tilkynna um að til standi að hætta bolfiskvinnslu þar í núverandi mynd sem þýðir að 16-17 störf hjá félaginu leggjast af. Bolfiskvinnslunni var ætlað að minnka árstíðabundnar sveiflur í atvinnulífi staðarins.Það var í byrjun febrúar 2016 sem efnt var til íbúafundar um atvinnuástand á Vopnafirði. Heimamenn höfðu áhyggjur, komið var fram á miðja loðnuvertíð, ekkert hafði veiðst og lítið við að vera.
Á Vopnafirði byggir atvinnulífið á útgerðinni. Til fundarins kom Vilhjálmur Vilhjálmsson þá forstjóri HB Granda, kjölfestufyrirtækis staðarins. Hann fór yfir framtíðarhorfur í uppsjávarveiði, sem reksturinn á Vopnafirði hafði byggt á, og taldi þær ekki bjartar. Annars vegar væru veiðistofnarnir sveiflukenndir, hins vegar hafði verð hrunið vegna innflutningsbanns Rússa nokkrum mánuðum fyrr.
Hann opinberaði þar ákvörðun stjórnar félagsins um að byggja upp bolfiskvinnslu á staðnum sem ætlað var að halda uppi atvinnu á staðnum á milli vertíða. Ákvörðun hans var fagnað. Einn fundargestur þakkaði honum fyrir að gefa fólkinu vonina á ný. Sigurður Ingi Jóhannsson, þáverandi sjávarútvegsráðherra, sagði fyrirtækið ekki eingöngu sýna samfélagslega ábyrgð heldur trú á samfélaginu úti á landi. Í lok fundarins fóru margir fundargestir til Vilhjálms og þökkuðu honum fyrir.
Vilhjálmur gat lítið sagt um nákvæma útfærslu vinnslunnar. Ákvörðunin var rétt vikugömul en í samtali við Austurfrétt sagði hann að um framkvæmd upp á hundruð milljóna væri að ræða. Enn bættist við um sumarið þegar HB Grandi keypti þorskkvóta í Þorlákshöfn til að nýta í vinnsluna á Vopnafirði.
Aftur til 2016?
Ári seinna tók svo vinnslan til starfa og allir voru ánægðir. Í mars sagðist Magnús Róbertsson, vinnslustjóri á Vopnafirði, í samtali við heimasíðu fyrirtækisins hugsa til þess með skelfingu ef bolfiskvinnslan hefði ekki verið komin. Starfsfólkið í uppsjávarfrystihúsinu hefði þá ekkert haft að gera frá lokum síldarvertíðar í nóvember fram að makrílvertíð í júlí. Hann sagði vinnsluna einnig skipta máli til að halda í reynt og gott starfsfólk.
Með ákvörðuninni á þriðjudag virðast Vopnfirðingar að einhverju leyti vera komnir á sama stað og þeir voru í byrjun febrúar 2016. Heimamenn hafa haft áhyggjur af að samfélagið þeirra væri vertíðasamfélag. Áður en nýja vinnslan kom til var næg atvinna í sjö mánuði á ári, svo mjög að fólk hafði engan tíma í félagslíf, en hina fimm var ekkert að gera. Afleiðingarnar væru að fólk kæmi til staðarins til að vinna í stuttan tíma en skildi ekki endilega mikið eftir.
Forsvarsmenn HB Granda munu hafa gefið vilyrði fyrir því á þriðjudag að reynt verði að tryggja heilsársstörf á staðnum þótt ekki sé fullkomlega ljóst hvernig.
Tangi og HB Grandi
Árið 2004 sameinaðist bæjarútgerðin á Vopnafirði, Tangi, HB Granda. Framkvæmdastjóri Tanga, fyrrnefndur Vilhjálmur Vilhjálmsson, tók þá við uppsjávarsviði Granda. Hann varð svo forstjóri 2012.
Við samrunann eignaðist hreppurinn hlut í útgerðarfélaginu. Sá hlutur, 2,5%, var seldur síðla árs 2011 á tæpan hálfan milljarð króna. Sú sala er grunurinn að góðri skuldastöðu hreppsins, sem er talin vera ein sú besta á landinu.
Segja má hafi verið stöðugur uppgangur hafi verið í útgerðinni á Vopnafirði undanfarin 14 ár. Undantekningar þar á eru salan á Brettingi NS árið 2006 en samfélagið virtist jafna sig fljótt á henni enda skiluðu önnur skip nægu hráefni. Uppsagnirnar í vikunni eru annað stóra bakslagið frá sameiningunni.
Samhliða uppbyggingu hefur HB Grandi stutt við góð verkefni í byggðinni, til dæmis boðið íbúum frían aðgang að líkamsrækt. Hreppurinn hefur endurgoldið það með að verja tugum milljóna í hafnarframkvæmdir til að ný og stærri skip útgerðarinnar komist þar inn.
Tap á bolfiskvinnslu og eigendaskipti
Þegar uppbygging bolfiskvinnslunnar var kynnt sagði Vilhjálmur að hún væri raunhæfasti kosturinn til að styrkja starfsemina með viðunandi arðsemi. Það virðist hins vegar hafa breyst hratt. Fyrstu vísbendingar þess komu reyndar strax í fyrravor þegar HB Grandi sagði upp tæplega 90 starfsmönnum á Akranesi og hætti bolfiskvinnslu þar. Forsendurnar voru annars vegar þær að vinnsla á botnfiski í landi borgaði sig ekki, hins vegar að vinnslan í Reykjavík gæti vel afkastað því sem þurfti. Tækniframfarir í sjávarútvegi eru örar og hafa sérfræðingar gefið til kynna að framundan séu miklar breytingar á botnfiskvinnslu.
Í sumar keypti útgerðarfélagið Brim tæplega 40% hlut í HB Granda. Í kjölfarið var Vilhjálmi sagt upp og Guðmundur Kristjánsson, eigandi Brims, tók við stjórninni. Síðan hafa verið miklar breytingar hjá félaginu og stjórnendur segja ákvörðunina á Vopnafirði hluta af endurskoðun rekstursins.
Í ljósi alls þessa komu uppsagnirnar á þriðjudag Vopnfirðingum ekki á óvart. Heimamenn, sem Austurfrétt hefur rætt við, segjast hafa fundið að eitthvað lægi í loftinu vikurnar á undan. Þeir eiga jafnframt von á frekari hagræðingu í rekstrinum á staðnum, þótt ekki verði sagt upp fleira fólki.
Vopnfirðingar virðast líka ákveðnir í að halda ótrauðir áfram. Viðmælendur Austurfréttar segja að þriðjudagurinn hafi verið erfiður en fólkið farið að sjá jákvæðu hlutina strax daginn eftir.
Hvað með aðra eigendur?
Guðmundur á ekki félagið einn. Lífeyrissjóðir landsins eiga samanlagt um 44% og gerðu athugasemdir við það í haust þegar Brim ætlaði að selja HB Granda útgerðarfélagið Ögurvík eftir verðmati sem virtist töluvert hærra heldur en HB Grandi var seldur á nokkrum mánuðum fyrr. Verðmatið liggur fyrir og verður tekið fyrir á framhaldshluthafafundi í dag.
Löngum voru lífeyrissjóðirnir þöglir meðeigendur en áherslur innan þeirra hafa breyst vegna krafna um að þeir sýni af sér samfélaglega ábyrgð. Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs og stjórnarmaður í lífeyrissjóðnum Stapa, sagði í fréttum að ekki væru ásættanlegt að launafólk borgaði fyrir skuldsettar yfirtökur með störfum sínum.
Í svari við fyrirspurn Austurfréttar sagði Jóhann Steinar Jóhannsson, framkvæmdastjóri Stapa, að sjóðurinn væri að skoða málin og mæti þær upplýsingar sem bærust af málinu.
Annað uppsagnarbréfið á þremur árum
Ellefu fengu uppsagnarbréfið á þriðjudag. Þremur hafði áður verið sagt upp tímabundnum samningum og eftir því við hvern er rætt hafa 2-3 sagt upp nýverið störfum sem ekki verður ráðið í. Alls eru því 16-17 störf að hverfa út úr samfélaginu á Vopnafirði eða 4,3-4,5%. Það jafngildir 5450-5700 störfum á höfuðborgarsvæðinu. Svipaður fjöldi missti vinnuna milli janúar og febrúar 2009 út af hruninu.
Áhrifin eru þó kannski ekki verst á Vopnafirði heldur á Bakkafirði. Eftir því sem næst verður komist búa tíu þeirra sem sagt var upp á þriðjudag þar. Á staðnum búa samkvæmt nýjustu tölum Hagstofunnar 65 einstaklingar. Ef Bakkafjörður væri dýrategund væri hún trúlega skilgreind í útrýmingarhættu.
Fólkið er mest af erlendum uppruna og standa margir uppi atvinnulausir í annað skiptið á þremur árum eftir uppsagnir hjá Toppfiski síðsumars 2015.
Uppsagnarbréfin nú fengu þeir sem styst höfðu starfað, skemur en tvö ár, hjá HB Granda. Í þeim hópi er líka unga fólkið, sem svæðið hefur svo vantað að ná að halda í.
Í tilkynningu HB Granda frá á miðvikudag segir að engin áform séu um að draga úr starfsemi fyrirtækisins á Vopnafirði. Fastráðnir starfsmenn í uppsjávarfrystihúsinu séu eftir uppsagnirnar 60, líkt og þeir hafi verið í gegnum árin.
Þar segir að verið sé að skoða hvernig sé að haga starfsemi á milli vertíða á Vopnafirði en engin ákvörðun liggi fyrir. Þar til hún verður kynnt gera Vopnfirðingar það besta úr stöðunni.