Fréttaskýring: Hvað þýðir óvissuástand vegna Öskju fyrir Austurland?

Að almannavarnir hafi lýst yfir óvissustigi vegna landriss við Öskju hefur óveruleg áhrif á austfirska viðbragðsaðila að sinni. Efri-Jökuldalur er meðal þeirra byggða sem næst eru eldstöðinni í loftlínu.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra færði viðbúnað vegna landrisins í gær upp á óvissustig. Helsta breytingin er sú að vöktun á svæðinu er aukin.

Askja er innan embættis lögreglustjórans á Norðurlandi eystra sem stýrir aðgerðum. Óvissustigið þýðir þó að undirbúningsvinna er hafin eystra ef til goss kæmi.

Viðbrögð við eldgosi í Öskju eru skilgreind í viðbragðsáætlun fyrir eldgos norðan Vatnajökuls. Mest áhersla í þeirri áætlun er þó á viðbrögð við gosi undir Vatnajökli sem leiða myndi til flóðs í Jökulsá á Fjöllum.

Fari yfir búnað og áætlanir

Þar er lögreglunni á Austurlandi, einkum á Egilsstöðum og Vopnafirði ætlað hlutverk á óvissustigi, sem og björgunarsveitunum Jöklum, Héraði, Vopna sem og landvörðum Vatnajökulsþjóðgarðs.

Samkvæmt viðbragðsáætluninni er þessum aðilum nú ætlað að fara yfir viðbragðsáætlanir og þau verkefni sem þeim eru ætluð á neyðar-, eða hættustigi og tryggja að búnaður sé tiltækur þurfi á honum að halda. Á neyðarstigi, þegar gos hefst, er þessum aðilum meðal annars ætluð hlutverk við rýmingu og lokanir, einkum austan Jökulsár á Fjöllum.

Stórt öskugos 1875

Askja er meðal þeirra eldstöðva sem næstar eru Austurlandi. Loftlína þaðan til efstu bæjanna á Jökuldal er tæpir 60 km, álíka mikið og í Möðrudal, Bárðardal og suðurbyggðina við Mývatn.

Fyrsta þekkta gosið í Öskju eftir landnám varð árið 1875. Eldstöðin gaus þá sprengigosi, en þá kemst vatn ofan í kvikuna og kælir hana svo hún verður að ösku áður en hún kemst upp úr jörðinni. Spenna byggist upp komist askan upp á yfirborðið getur hún þeyst langar leiðir. Dreifingin fer eftir vindi. Sprengigosin standa yfirleitt stutt en geta haft mikil áhrif.

Árið 1875 varð askan í byggð þykkust á Efra-Jökuldal, 20 sentímetrar. Fór svo að flestallir íbúar þar, og í Jökuldalsheiði, flúðu tímabundið, margir til Vopnafjarðar og þaðan jafnvel áfram vestur um haf. Nokkur aska var einnig í Fljótsdal og Fellum en segja má hún hafi dreifst um allt Fljótsdalshérað og Austfirði frá Borgarfirði suður til Fáskrúðsfjarðar.

Askja gaus síðan sjö sinnum á árunum 1921-29 og aftur árið 1961 en þau gos voru öll smávægileg og áhrif þeirra engin í byggð.

Frá eldgosinu í Holuhrauni 2014, en það var ekki fjærri Öskju. 


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.