Hvaða frumvörp sem varða Austurland ætlar ríkisstjórnin að leggja fram á vorþingi 2025?
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 04. feb 2025 11:43 • Uppfært 04. feb 2025 12:42
Sameining sýslumannsembættanna í eitt er meðal þeirra sem nýr dómsmálaráðherra ætlar að leggja fram á vorþingi. Hækkun veiðigjalda er líka á dagskrá en samgönguáætlun kemur ekki fyrr en í haust.
Oddvitar ríkisstjórnaflokkanna kynntu í gær þau þingmál sem flokkarnir áforma að leggja fram á vorþingi. Þing verður sett í dag og er það í fyrsta sinn sem Alþingi kemur saman eftir kosningarnar í lok nóvember.
Ýmis mál á þingmálaskránni varða Austurland með beinum hætti. Sum eru ný, önnur byggja á grunni frá fyrri ríkisstjórn. Austurfrétt renndi yfir þau helstu.
Sýslumannsembættin sameinuð í eitt
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra, ætlar í mars að leggja fram frumvarp til laga um sýslumann. Þar stendur til að sameina embættin, sem í dag eru níu, í eitt. Samkvæmt tilkynningu er tilgangurinn að „bæta þjónustu hins opinbera á landinu öllu.“ Því á að ná með „hagræðingu, einfaldari stjórnsýslu og jöfnu aðgengi að opinberri þjónustu, óháð búsetu“
Í mars 2022 kynnti þáverandi dómsmálaráðherra, Jón Gunnarsson, tillögur um sameiningu embættanna. Þær náðu aldrei forgangi, mættu andstöðu á Alþingi og voru harðlega gagnrýndar, meðal annars af félagi sýslumanna. Í október skipaði Guðrún Hafsteinsdóttir, þá ráðherra, sýslumanninn á Norðurlandi eystra einnig sem sýslumanninn á Austurlandi. Sú skipun gildir í ár.
Hækkun veiðigjalds í mars
Nokkur frumvörp úr rann atvinnumálaráðherra, Hönnu Katrínar Friðriksdóttur, snúa að Austurlandi. Í mars er von á tillögum um hækkun veiðigjalds. Fyrri ráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, hafði einnig boðað hækkanir. Austfirskar útgerðir vara við því en fjórðungurinn hefur síðustu ár lagt hvað mest til ríkisins í gegnum veiðigjöld. Á sama tíma er líka boðaðar tillögur um breytingar á strandveiðum. Strax í febrúar ætlar ráðherrann að mæla fyrir breytingu um upplýsingaöflun um tengda aðla í sjávarútvegi.
Hanna Katrín áformar einnig strax í febrúar að leggja til breytingu á búvörulögum, sem afturkallar undanþágur framleiðendafélaga frá samkeppnislögum og gerði kaup Kaupfélags Skagfirðinga á Norðlenska/Kjarnafæði möguleg. Eins eru væntanlegar breytingar á jarðalögum er varða forkaupsrétt sameigenda. Að lokum má nefna breytingar á lögum til að vinna að markmiðum áætlunar um útrýmingu riðuveiki. Þær stendur til að leggja fram í mars.
Frumvarp um kílómetragjald endurflutt
Úr fleiri ráðuneytum koma tillögur sem snúa að hafnsækinni starfsemi. Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, ætlar í næsta mánuði að leggja fram frumvarp til breytingar á lögum um skipulag haf- og strandsvæða. Nánar segir að til standi að gera „tilteknar lágmarksbreytingar til að sníða af þeim tæknilega agnúa sem komið hafa í ljós við framkvæmd þeirra.“ Slíkt snýst meðal annars um tilnefningar ráðuneyta í svæðisráð, að skýra skipunartíma ráðanna og hlutverk Skipulagsstofnunar.
Fjármálaráðherra, Daði Már Kristófersson, ætlar strax í febrúar að endurflytja frumvarp til laga um kílómetragjald ökutækja. Frumvarpið var tilbúið síðasta haust en náði ekki fram að ganga. Samband austfirskra sveitarfélaga varaði við að það gæti aukið kostnað á dreifbýli. Eins er lögð til hækkun á kolefnisgjaldi.
Stórmál í haust
Að lokum má nefna nokkur mál á skrá Eyjólfs Ármannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Til stendur að lengja gildistíma laga um svæðisbundna flutningsjöfnun til ársins 2030 en þau eiga að falla úr gildi í ár. Um leið á að lagfæra þau. Þar eru líka lagabreytingar sem snúa að sveitarfélögum, svo sem um Jöfnunarsjóð og að meta skuli áhrif ákvarðana ríkisins, svo sem laga frá Alþingi, á sveitarfélög.
Á þingmálaskrá hans er þó ekki að finna það frumvarp sem Austfirðingar hafa beðið með mestri eftirvæntingu, sem er ný samgönguáætlun. Hún er væntanleg í haust. Fleiri stór málefni sem snerta fjórðunginn eru boðuð þá svo sem frumvarp um lagareldi, um skattlagningu orkumannvirkja og jöfnun á dreifikostnaði raforku.
Mynd: Stjórnarráðið