Fundu grip í Fáskrúðsfirði sem talinn er frá skútuöld
Hásetar um borð í togaranum Múlabergi SI fundu nýlega stóran trégrip þegar togarinn var við rannsóknaveiðar í Fáskrúðsfirði. Jafnvel er talið að um hluta af franskri skútu sé að ræða frá fornri tíð eða skútuöldinni.Finnur Sigurbjörnsson skipstjóri á Múlabergi sagði í samtali við mbl.is að þetta gæti hugsanlega verið siglutré og augljóslega eldgamalt. Jafnframt kom fram að gripurinn hefði fundist undan bænum Eyri sunnarlega í firðinum.
Albert Eiríksson sem heldur úti uppskrifta-og upplýsingavefnum Albert eldar leiddi að því líkum að annað hvort væri þessi trégripur úr frönsku skútunum Moette eða Daniel sem strönduðu við Eyri á sama sólarhringnum í aftakaveðri sunnudaginn 8. maí árið 1910. Vísaði hann í heimildir þ.e. frásögn Oddnýjar Þorsteinsdóttur húsfreyju á Eyri um þennan atburð.
Þuríður Elísa Harðardóttir minjavörður Austurlands telur ósennilegt að gripurinn sé úr Moette eða Daniel þar sem báðar þessar skútur náðust af strandstað og sigldu á brott að nýju.
„Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem minjar hafa verið dregnar upp úr sjónum. Í slíkum tilfellum er mikilvægt eins alltaf þegar fornminjar finnast, að tilkynna fundinn til Minjastofnunar,“ segir Þuríður Elísa. „Hver næstu skref í málinu eru fer eftir gripnum og fundaraðstæðum.“
"Það á helst ekki að taka gripinn upp ef hægt er þar sem hann getur verið hluti af stærri fornleifafundi. En ef gripurinn er í hættu, t.d. vegna þess að hann liggur í fjöru eða það er hætta á að hann týnist, má taka hann með sér en það er mikilvægt að fundarstaður hans sé skráður, t.d. með gps- staðsetningu, góðri ljósmynd eða lýsingu,“ segir Þuríður Elísa.
Eins og flestum er kunnugt var náið samband milli franskra sjómanna og íbúa Fáskrúðsfjarðar á skútuöld samanber bygging franska spítalans árið 1903 á Fáskrúðsfirði,
Myndina tók Agnes Stefánsdóttir, sviðsstjóri rannsóknar- og miðlunarsviðs Minjastofnunar.