Fyrrum Eiðanemi að baki kauptilboði í Eiða

Arngrímur Viðar Ásgeirsson, framkvæmdastjóri ferðaþjónustunnar Álfheima á Borgarfirði, stendur að baki kauptilboði í jörðina Eiða sem Landsbankinn hefur samþykkt. Tilboðið er háð ákveðnum fyrirvörum, meðal annars um fjármögnun.

„Það er rétt að ég hef komist að samkomulagi við bankann um kaupverð. Það er enn verið að vinna að fjármögnun og ég er í viðræðum við fjárfesta.

Í tilboðinu eru fyrirvarar varðandi fjármögnun, lokaúttekt fasteigna og fleira. Vonandi gengur þetta allt í gegn en það er ekki svo að ég sé orðinn eigandi Eiða enn,“ segir Arngrímur Viðar.

Um er að ræða jörð og húsnæði sem áður tilheyrði Alþýðuskólanum á Eiðum. Arngrímur Viðar var þar sem nemandi eftir grunnskólanám á Borgarfirði. „Ég var þarna nemandi í þrjú og hálft ár þannig ég hef sterkar taugar til staðarins,“ segir hann.

En á meðan kaupin eru ekki gengin í gegn er hann ekki tilbúinn að ræða hugsanlega framtíðarstarfsemi á Eiðum. „Það er alltof snemmt að tjá sig slíkar hugmyndir, enda eru þær ekki mitt einkamál heldur vinnast með þeim fjárfestum sem koma að verkefninu með mér.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.