Fyrsta skóflustungan að nýjum leikskóla

Fyrsta skóflustungan að nýjum leikskóla í Fellabæ var tekin í dag. Stefnt er að því að skólinn verði tekinn í notkun haustið 2022.

Það voru þau Guðmunda Vala Jónasdóttir, leikskólastjóri í Fellabæ, Stefán Vignisson framkvæmdastjóri MVA og Björn Ingimarsson, bæjarstjóri, sem tóku fyrstu skóflustunguna ásamt hópi leikskólabarna.

Stórvirkari vinnuvélar mæta á svæðið eftir helgi. MVA er aðalverktaki verksins en Mannvit hefur eftirlit með því.

Leikskólinn verður alls 890 fermetrar. Gert er ráð fyrir að hann verði tilbúinn að innan 15. júlí á næsta ári og verklok eru áætluð mánuði síðar. Þrjár deildir verða á skólanum og pláss fyrir um sextíu börn.

Kostnaður er áætlaður 650 milljónir króna. Í samtali við Austurfrétt sagði Björn að það værri í hærri mörkum kostnaðaráætlunar. Þetta hefði þó orðið niðurstaðan eftir rýni og endurskoðun.

Í ávarpi sínu sagði hann að framkvæmdin hefði verið nokkur ár í undirbúningi. Skoðaðar hefðu verið nokkrar mismunandi staðsetningar en niðurstaðan orðið að hafa skólann rétt utan við grunnskólann.

„Þetta verkefni er liður í að þróa samfélagið okkar áfram á jákvæðan hátt og því ber að fagna. Ég er sannfærður um að þessi skóli verður prýði í okkar ágæta sveitarfélagi.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.