Fyrsta prentun af hreindýrabók Skarphéðins uppseld hjá útgefanda
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 18. des 2024 16:52 • Uppfært 18. des 2024 16:55
Búið er að prenta annað upplag af bókinni „Á slóðum íslenskra hreindýra“ sem er með úrvali hreindýramynda eftir líffræðinginn Skarphéðinn G. Þórisson. Skarphéðinn lagði drög að bókinni áður en hann lést í flugslysi í fyrra. Útgefandi segir að bókin muni halda minningu Skarphéðins á lofti.
„Það hefur verið mikil eftirspurn eftir bókinni. Í gær voru verslanir hér á Egilsstöðum búnar með sitt upplag,“ segir Sigurjón Bjarnason, hjá bókaforlaginu Bókstafi sem gefur bókina út en hann var í dag að dreifa eintökum úr annarri prentun.
Skarphéðinn fórst í flugslysi ofan Skriðdals í júlí í fyrra, ásamt Kristjáni Orra Magnússyni flugmanni og Fríðu Jóhannesdóttur, samstarfsmanni sínum hjá Náttúrustofu Austurlands en þau voru við rannsóknir á hreindýrastofninum.
Skarphéðinn hafði þá lagt drög að bókinni, verið kominn vel á veg að velja myndir og skrifa uppkast að textanum. Þess vegna er hann titlaður höfundur bókina. Unnur Birna Karlsdóttir kláraði textann, Ragnhildur Ásvaldsdóttir sá um myndritstjórn og Hálfdán Helgi Helgason, sem tók við stjórn hreindýrarannsókna hjá Náttúrustofu Austurlands, ritaði formála. Rótarýklúbbur Héraðsbúa styrkti útgáfuna en Skarphéðinn var félagi í klúbbnum.
Bókin kom í verslanir þann 10. nóvember síðastliðinn og haf þegar verið seld af henni um 500 eintök. Sigurjón segir markmiðið síðar að selja bókina til ferðamanna en hún er bæði á íslensku og ensku.
„Við munum dreifa henni á ferðamannastaði fyrir næsta sumar. Þetta er ákaflega vandaður gripur og ber öllum sem að honum komu fagurt vitni. Myndirnar eru frábærar og bera höfundinum fagurt vitni. Hún er frábær kynning fyrir Austurland,“ segir Sigurjón.
Hann segir mest af bókinni seljast á Fljótsdalshéraði en hún fari þó víða. „Eftirspurnin er mest hér fyrir austan en líka talsverð fyrir sunnan. Það segir sitt að hver bókabúðin á eftir annarri hefur pantað fleiri eintök. Síðan vitum við að það er þegar byrjað að gefa hana út fyrir landssteinana.“