Fyrsti dagurinn viðburðaríkur

Jón Björn Hákonarson mætti til vinnu í morgun í fyrsta sinn sem bæjarstjóri Fjarðabyggðar. Hann lýsir fyrsta deginum sem viðburðaríkum en framundan eru ýmis krefjandi úrlausnarefni.

„Þetta hefur verið viðburðaríkur dagur með ýmsum verkefnum en allt gengið vel. Mörg þeirra þekkir maður vel úr starfi bæjarfulltrúa þótt maður nálgist þau frá öðrum hliðum núna,“ segir Jón Björn.

Karl Óttar Pétursson óskaði í gærmorgunn eftir að hætta tafarlaust sem bæjarstjóri og var orðið við því. Jón Björn hefur verið forseti bæjarstjórnar en á fundi bæjarráðs seinni partinn í gær var samþykkt að hann yrði bæjarstjóri.

Mun aldrei skorta verkefni

„Ég hef verið að setja mig inn í mál, hitta fólk á skrifstofunni og sinna sveitastjórnarmálum á landsvísu. Vinna við fjárhagsáætlun næsta árs er í gangi og allar nefndir starfa að henni. Síðan eru ýmis önnur mál sem tengjast inn í starfsemina. Okkur mun aldrei skorta verkefni en við erum svo heppin að vera með gott starfsfólk á öllum stigum þannig ég er bjartsýnn á að þetta gangi vel.

Við vitum að samfélagið allt hér á landi er á leið í djúpa efnahagsleið og það reynir á að við vöndum okkur. Við eigum gott samfélag og sterk og góð fyrirtæki. Ég hef fulla trú á að okkur muni ganga vel og vonandi verður sem mest samstarf á hinu pólitíska sviði.“

Aðspurður um hvort fleiri breytingar hefðu orðið á starfsliði bæjarskrifstofunnar síðustu daga eða hvort þær væru áformaðar svaraði Jón Björn því að engar breytingar hefðu enn orðið en að öðru leyti gæti hann ekki rætt mál einstakra starfsmanna.

Kannast ekki við að fjármálin séu í ólestri

Samkvæmt skýrslu starfshóps um fjármála sveitarfélaga verða heildartekjur Fjarðabyggðar 120 milljónum lægri en áætlað var. Kemur þar til bæði loðnubrestur og Covid-faraldurinn. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa að undanförnu bókað athugasemdir við fjármál sveitarfélagsins og ítrekuðu áhyggjur sínar í gær.

„Ég kannast ekki við að fjármálin hér séu í ólestri. Ég held að slíkt sé fullsterkt til orða tekið þótt fólk greini á í pólitík,“ segir Jón Björn.

„Það syrtir í hjá öllum sveitarfélögum. Við vitum að það verður halli á sveitarsjóði en erum að ná utan um áhrifin. Jöfnunarsjóður byggir á útsvari og skatttekjum og það liggur fyrir að hann hefur ekki þær tekjur sem reiknað var með. Útsvarið var lágt framan af ári en hefur tekið við sér eftir góðar makríl- og síldarvertíðar.“

Samkvæmt skýrslu starfshópsins hefur Fjarðabyggð ráðist í viðbótarfjárfestingar upp á 156 milljónir til að mæta áhrif Covid-faraldursins. „Við tókum á okkur skuldbindingar og fjölguðum störfum í sumar. Þótt hér hafi ekki komið upp mörg smit hefur faraldurinn haft áhrif á samfélagið þannig við höfum þurft að takast á við aðstæður og grípa til aðgerða sem juku kostnað.“

Miðað við orð oddvita annarra lista í bæjarstjórn Fjarðabyggðar virðist Jón Björn njóta talsverðs trausts til vinna úr þeim verkefnum sem honum hafa nú verið falin. „Ég legg mikið upp úr að eiga gott samstarf við alla og að samskipti milli fólks séu góð og traust. Það hef alla tíð gert í mínum störfum þótt fólk hafi mismunandi skoðanir.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.