Skip to main content

Gagnlegur fundur Öryrkjabandalagsins vegna fatlaðra á Austurlandi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. feb 2025 16:04Uppfært 19. feb 2025 16:07

Vonir standa til að nýlegur fundur forsvarsmanna Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) með lykilmönnum stærstu sveitarfélaganna á Austurlandi leiði eftirleiðis til breytinga til batnaðar.

Fulltrúar frá Öryrkjabandalagi Íslands heimsóttu Austurland fyrir skömmu til að afla sér upplýsinga um stöðu ýmissa mála gagnvart fötluðum í fjórðungnum. Sérstaklega var verið að líta til landsverkefnisins Gott aðgengi í ferðaþjónustu en því tengt rætt um akstursþjónustu og aðgengi almennt fyrir fatlaða einstaklinga að hinum og þessum stöðum.

Fundur vegna þessa voru bæði haldnir í Múlaþingi og Fjarðabyggð og segir Guðni Sigmundsson, formaður Sjálfsbjargar á Mið-Austurlandi, fundina hafa verið gagnlega.

„Nú skal ég ekki segja hvort langt sé síðan fulltrúar ÖBÍ hafa komið til funda hér fyrir austan en ég get sagt að þessir fundir voru gagnlegir. Þar var rætt á víðum grunni um aðgengismál fatlaðra hér og áréttað hvaða rétt við höfum til aðgengis að hinum ýmsu stöðum lögum samkvæmt. Þeir fundir voru grunnur að vinnu sem hófst strax í kjölfarið og hvers niðurstöður ég fæ til mín á næstunni. Sjálfur þekki ég vel til fulltrúanna sem hingað komu og treysti þeim vel til að vinna mikilvæg mál áfram. Vonandi verður það til þess að aðgengi fatlaðra batnar enn frekar hér fyrir austan á næstunni“ 

Af hálfu sveitarfélaganna tveggja var í kjölfarið þeim skilaboðum komið til allra nefnda að allt er viðkemur skipulagi, áætlunum og aðgengismálum fatlaðra einstaklinga færi fyrir sjónir samráðshópa um málefni fatlaðs fólks ekki síður ef vera skyldi að þaðan kæmi athugasemdir.

Fulltrúar ÖBÍ eftir fund með forsvarsmönnum Fjarðabyggðar. Enn vantar töluvert upp á að fatlaðir einstaklingar hafi jafnt aðgengi að hinum ýmsu stöðum og aðrir. Mynd Fjarðabyggð