Orkumálinn 2024

Gagnrýna tafir á fjárhagsáætlun Vopnafjarðar

Minnihlutinn í sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps gagnrýnir að drög að fjárhagsáætlun liggi ekki enn fyrir þótt samþykktir hreppsins geri ráð fyrir að þau liggi fyrir eigi síðar en 1. nóvember ár hvert. Oddviti sveitarstjórnar segir seinkunina skýrast af miklu álagi á starfsfólks hreppsskrifstofunnar.

„Við erum óánægð með hve seint áætlunin kemur fram. Það hefur stundum verið farið aðeins frjálslega með þessi mörk sem miða við 1. nóvember en nú er kominn 17. nóvember og það er ekkert komið fram. Úr því sem komið er þá fer hún ekki fyrir hreppsnefnd fyrr en 24. nóvember, sem er 24 dögum of seint.

Þetta væri annað ef við hefðum hugmynd um hvert meirihlutinn ætlaði að stefna varðandi framtíðarsýn og framkvæmdir en við höfum ekkert slíkt. Það er búið að boða fund í hreppsráði á mánudag til að fara yfir áætlunina en við höfum enn engin gögn fengið,“ segir Bjartur Aðalbjörnsson, oddviti Vopnafjarðarlistans sem er í minnihluta á Vopnafirði.

Hann lagði fram bókun á fundi hreppsráðs í byrjun mánaðarins við umræðu um útsvarshlutfall ársins 2023 þar sem tafir á fjárhagsáætluninni voru gagnrýndar. „Við höfum ekki fengið neinar skýringar aðrar en að vinnan hafi farið of seint af stað. Það er alltaf talað um að hafa betra skipulag á áætlunargerðinni til að geta haft betri tíma til að fara betur yfir hana.“

Þurfum að byrja fyrr næst

Axel Örn Sveinbjörnsson, oddviti meirihluta Framsóknarflokks, segir mikið álag á fámenna skrifstofu hreppsins stærstu skýringuna á töfunum. „Það hefði verið skemmtilegra að hafa áætlunina tilbúna fyrr en það er mikið álag á fólkinu okkar á skrifstofunni. Við bætist að verið er að innleiða nýtt kerfi sem setur upp sviðsmyndirnar í áætluninni.

Ég hef rætt það við starfsfólkið okkar að þetta gerist ekki aftur. Við verðum að vera meira vakandi og byrja vinnuna fyrr.“

Axel segir að meirihlutann skýran með hvaða verkefnum hann vilji forgangsraða en mesti tíminn í áætlunargerðinni sé gagnavinnsla út frá fyrri árum. Hann segir ekki ljóst hvort áætlunin verði tilbúin fyrir fundinn á mánudag en hún verði örugglega tilbúin þegar sveitarstjórn kemur saman eftir viku.

Reiknað er með seinni umræðu um fjárhagsáætlunina þann 15. desember. Axel segir að miðað við allra fyrstu drög að áætluninni verði niðurstaðan góð sem sé fagnaðarefni því síðustu ár hafi verið þung fyrir Vopnafjarðarhrepp. Loðnubrestur tvö ár í röð reyndist erfiður, bæði vegna tekjumissis hafnarsjóðs en líka minni útsvarstekna. Síðan hafi bæst við Covid-faraldurinn, skuld vegna lífeyrisgjalda og síðan hækkanir á kjarasamningum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.