Galið að 10% íbúa í einu sveitarfélagi geti þvingað tvö til sameiningarviðræðna
Lögmaður Fljótsdalshrepps telur margt í tillögum innviðaráðherra um þvingaðar sameiningar sveitarfélaga stórgallað, og ekki bara gagnvart minna sveitarfélaginu. Hann telur litlar líkur á að hreppurinn fái nokkrar undanþágur af þeim sem þó eru lagðar fram í tillögunum.
Eyjólfur Ármannsson, innviðaráðherra, birti í lok september í samráðsgátt stjórnvalda tillögur um breytingu á sveitarstjórnarlögum. Þar er meðal annars lagt til að ráðherra fái vald til að sameina sveitarfélög með færri en 250 íbúa öðrum, miðað við tölur Hagstofunnar við hver áramót.
Sú tillaga hefur vakið talsvert hörð viðbrögð, á Austurlandi hvað mest í Fljótsdalshreppi sem er eina sveitarfélagið í fjórðungnum undir þeirri stærð. Einkum hefur verið bent á að þessu séu íbúar sviptir ákvörðunarvaldi sínu en til þessa hafa sameiningar farið fram með íbúakosningum.
Tvisvar fellt sameiningu í kosningu
Fljótsdælingar hafa til þessa fellt allar slíkar tillögur. Fyrst á jöfnu árið 1996 um sameiningu við Vallahrepp og Skriðdalshrepp sem varð til þess að hreppurinn var ekki með þegar seinni sveitarfélögin tvö tóku þátt í að mynda Austur-Hérað árið 1997.
Fljótsdælingar felldu aftur sameiningartillögu árið 2004 þegar Fljótsdalshérað varð til, með 57% atkvæða. Loks árið 2018 sögðust 67% íbúa þar enga sameiningu vilja sjá í könnun sem gerð var í aðdraganda stofnunar Múlaþings.
Enginn íbúi enn nýtt heimild til að óska eftir sameiningu
Árið 2021 var lagt til að sveitarfélög með undir 1000 íbúa yrðu þvinguð til sameiningar. Því var mótmælt af meira en helmingi sveitarfélaga í landinu og að lokum bakkaði þáverandi innviðaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson.
Málamiðlun var gerð sem fólst í því að sveitarfélögum var gert að veita ráðuneytinu upplýsingar á fjögurra ára fresti um þjónustu sína. Sveitarstjórnin þarf síðan að ræða mat ráðuneytisins og taka ákvörðun um hvort hún vilji hefja sameiningarviðræður. Að því loknu geta 10% kosningabærra íbúa kallað eftir almennri kosningu um ákvörðun sveitarstjórnarinnar. „Mér vitanlega hefur ekki ein slík ósk borist,“ sagði Kristinn Bjarnason, lögmaður Fljótsdalshrepps, á íbúafundi í félagsheimilinu Végarði á þriðjudagskvöld.
Sveitarstjórn boðaði til fundarins vegna áforma innviðaráðherra. Á fundinn mættu tæplega 50 íbúar en þar voru 80 manns á kjörskrá við Alþingiskosningarnar í fyrra.
Tillaga sem kemur aftan að sveitarfélögum
Kristinn rakti feril málsins nú og sagði innviðaráðherra í vor hafa lagt fram áformaskjal, þar sem hann kynnti væntanlegar breytingar á sveitarstjórnarlögum. Hann sagði lítil viðbrögð hafa verið almennt við skjalinu, enda engar kúvendingar boðaðar, eins og nú eru komnar fram. Fljótsdalshreppur sendi þó inn ítarlega umsögn sem Kristinn efaðist um að hefði verið lesin í ráðuneytinu miðað við að þaðan kæmi „sama mantran.“
Hann lýsti efa sínum um að þetta hafi komið óundirbúið. „Þetta var það eina sem var frábrugðið áformaskjalinu. Ég hef á tilfinningunni að þetta hafi alltaf mallað á skrifstofu sveitarstjórnamála í ráðuneytinu. Svona dúkkar ekki upp á einni helgi.“
Fáir íbúar geta skuldbundið mjög marga
Í lögunum nú er talað um að sameina litlu sveitarfélögin „aðliggjandi sveitarfélögum.“ Land Fljótsdalshrepps, sem er 22. landmesta sveitarfélag landsins, liggur að mestu að Múlaþingi en einnig að Sveitarfélaginu Hornafirði. Kristinn benti á að með tillögunum nú væri réttindi ekki bara tekin af Fljótsdælingum heldur líka íbúum Múlaþings. Í umsögn Múlaþings um tillögurnar er bent á þetta atriði.
Að sögn Kristins eru réttindin ekki bara tekin af sveitarfélögunum með sjálfri ákvörðuninni um sameininguna heldur með fleiri ákvæðum. Gert er ráð fyrir að 10% kosningabærra íbúa eins sveitarfélags geti með undirskriftalista krafist sameiningarviðræðna við aðliggjandi sveitarfélag. Það þýðir að 8 Fljótsdælingar geta þvingað sveitarstjórnir eigin hrepps og Múlaþings, þar sem 3.574 voru á kjörskrá í fyrra, til sameiningarviðræðna.
Þá er einnig ákvæði að 10% íbúa í sveitarfélagi með yfir 1.000 íbúa geti krafist þess að það vinni álit um stöðu þess innan árs frá kosningum. Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri á Grenivík sem einnig sótti fundinn, sagði þessi ákvæði brjóta gegn reglum um fjárstjórnarvald sveitarfélaga. „Þetta er galið,“ sagði Kristinn.
Langsótt að Fljótsdælingar fái undanþágur
Þegar íbúafjöldinn fer undir mörk tilkynnir ráðherra viðkomandi sveitarfélagi um áform sín og óskar eftir umsögn sveitarstjórnar um hvort þar séu sérstakar aðstæður sem hindri sameiningu, auk umsagna aðliggjandi sveitarfélags og landshlutasamtaka. Ráðherra þarf ekki að bíða eftir umsögnunum umfram takmarkaðan frest. Eftir ákvörðun ráðherra getur sveitarstjórn minna sveitarfélagsins ekki lengur tekið ákvarðanir um fjárskuldbindingar, umfram dagleg verkefni.
Í frumvarpinu eru ákvæði um að ráðherra geti „við sérstakar aðstæður“ veitt sveitarfélögum undanþágu frá sameiningum. Slíkt á meðal annars að byggja á samgöngum við næsta þéttbýli, hversu vel þjónustu sé sinnt en líka fleiri atriðum, ef ráðherra sýnist svo. Undanþága skal endurskoðuð á fjögurra ára fresti.
Gert er ráð fyrir að sveitarstjórn geti óskað eftir heimastjórn í 1-2 kjörtímabil eftir sameiningu. Aftur er það undir ráðherra komið hvort heimastjórnin sé veitt og hve lengi. Kristinn sagði það „að mörgu leyti gerræðislegt“ hve litlar hömlur væru settar á þau atriði sem ráðherra skoði. Mat lögmannsins er að miðað við þau atriði sem þó eru talin upp, í bland við málflutnings Eyjólfs, séu litlar líkur á undanþágu eða heimastjórn í Fljótsdal. „Hann tekur Fljótsdalshrepp oft sem dæmi þótt hann nefni hann ekki á nafn. Miðað við hvernig ráðherra hefur talað er nánast útilokað að hann veiti Fljótsdalshreppi undanþágu frá lögþvingaðri sameiningu.“
Kristinn gagnrýndi að ráðherra talaði niður til fámennu hreppanna. „Hann talar um fjallskilahreppa og virðist ekki annað talið gert í þessum sveitarfélögum.“ Fram kom á fundinum að Eyjólfi hafði verið boðið á fjallskilarétt Fljótsdælinga í september en ekki mætt.
„Aðalvandamálið að Fljótsdalshreppur er ekki á hausnum“
Rekstrarniðurstaða Fljótsdalshrepps í fyrra var jákvæð um rúma 71 milljón króna. Tekjur hans voru 338 milljónir, þar af fasteignaskattur rúmar 183 milljónir. Stór hluti þess kemur frá Kárahnjúkavirkjun en fasteignagjöld vatnsaflsvirkjana eru greidd þar sem stöðvarhús eru staðsett sem í þessu tilfelli er í Fljótsdal. Sveitarfélagið er meðal fárra í landinu sem eiga meira en þau skulda.
Á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga í byrjun mánaðarins sagði Eyjólfur að andstaðan við frumvarpið snérist „ekki um lýðræði heldur peninga.“ Hann bætti enn fremur við: „Sveitarfélagið sem fær hundruð milljóna úr virkjuninni vill ekki sameinast fátæka sveitarfélaginu við hliðina á sér.“
„Aðalvandamálið er að Fljótsdalshreppur er ekki á hausnum. Það er voðalegt að hér sé ljósleiðari og bundið slitlag að húsum. Þetta þykir sjálfsagt í þéttbýli. Mesta vandamálið er hvað sveitarfélagið hefur verið rekið vel, verið framsýnt og farið vel með sín tækifæri,“ sagði Kristinn.
Barátta um tekjur af orkumannvirkjum
Hann sagði áformin um þvinganirnar tengjast öðrum lagafrumvörpum sem innviðaráðuneytið hefur verið með. Annars vegar um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, hins vegar um skattlagningu orkumannvirkja. Von var á tillögum um orkumannvirkin en þær virðast hafa verið færðar aftur fyrir sveitastjórnarlögin.
Kynnt hafa verið áform um hámarkstekjur á hvern íbúa í sveitarfélögum með orkumannvirki. Verðmætustu orkumannvirki landsins eru í Fljótsdal og Múlaþingi í formi Kárahnjúkavirkjunar. Hámarkið hafði þó mest áhrif á Fljótsdal og Ásahrepp en umframtekjurnar eiga að renna í Jöfnunarsjóð. „Arðgreiðslur Landsvirkjunar til ríkisins lækka við skattlagningu orkumannvirkjanna en það virðist ætla að spara sér Jöfnunarsjóðinn á móti,“ sagði Kristinn.
Íbúum best treystandi til að meta þjónustuna
Kristinn sagði gagnrýni á stjórnsýslu lítilla sveitarfélaga vart halda vatni í tilfelli Fljótsdalshrepps. „Stór hluti stærstu framkvæmdar Íslandssögunnar fór fram í Fljótsdalshreppi. Hún var umdeild með flóknum skipulagsmálum. Engu að síður var ekki reynt að hnekkja neinu af því sem fram fór í stjórnsýslunni í Fljótsdal fyrir dómstólum, þar sem síður var því hnekkt. Þetta snýst um að stjórnsýslunni sé sinnt af góðu fólki.“
Ummælum innviðaráðherra um að minni sveitarfélög veiti enga þjónustu svaraði Kristinn með því að íbúum væri best treystandi til að meta það. „Þið áttið ykkur ekki á hvað þið fáið lélega þjónustu,“ sagði hann í háði. Hann bætti einnig við að nokkur af fámennu sveitarfélögum hefðu undanfarin misseri annað hvort sameinast eða farið í viðræður. „Það er engin brýn þörf að ýta svona harkalega á þetta.“
Íbúar samþykktu ályktun um mótmæli gegn áformum ráðherra
Í frumvarpinu er lagt til að lögin taki gildi um næstu áramót þannig að hægt verði að kjósa í nýjum sveitarfélögum strax næsta vor. Ljóst er að hraðinn verður mikill ef það á að ganga eftir. Umsagnafrestur rann út í byrjun síðustu viku og eru þær til meðferðar hjá innviðaráðuneytinu. Það þarf síðan að fullmóta frumvarpið og leggja fyrir Alþingi.
„Það er með ólíkindum að það eigi að keyra þessar víðtæku breytingar í gegn á þessum stutta tíma, eingöngu vegna þess að menn geta ekki horft á að hér séu til örfá fámenn sveitarfélög sem vilja vera sjálfstæð. Það er alltaf talað um að fjölbreytileiki sé góður en þegar kemur að fjölbreytileika í stærð og gerð sveitarfélaga þá er hann ekki lengur góður. Sú mantra hefur verið sungin hressilega í mörg ár,“ sagði Kristinn að lokum.
Í lok fundar var samþykkt ályktun, með öllum greiddum atkvæðum, um að „aðför innviðaráðherra að tilveru Fljótsdalshrepps“ sé hafnað. Þess er krafist að stjórnarskrárvarin sjálfsstjórn sveitarfélagsins verði virt, sem og lýðræðislegur réttur íbúa til að ráða málefnum þess. Mótmælt er harðlega að ráðherra fái vald til að þvinga sveitarfélög til sameiningar, óháð vilja kjörinna fulltrúa eða íbúa viðkomandi sveitarfélaga.