Gamanleikur um samskipti Pólverja og Íslendinga

Pólsk-íslenski leikhópurinn Pólis sýnir í kvöld leikverkið "Co za poroniony pomysł" eða „Þau hafa ekki hugmynd um hversu slæm þessi hugmynd er!“ í Valhöll á Eskifirði.

Í verkinu segir frá Pólverjunum Ola og Kuba auk Íslendingsins Óla, íslensks leikara sem lærir pólsku með aðstoð Duolingo. Þegar hann tekur eftir vinsældum pólskra kvikmynda fær hann þau með sér í að gera leiksýningu á pólsku.

Leikið er á pólsku en uppi á skjá í kvöld verður texti á ensku þannig fleiri geti fylgst með. Sýnigin er hluti af listahátíðinni Vor eða Wiosna, þar sem pólsk list er í forgrunni, sem haldin hefur verið á vegum Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs síðustu tvö ár.

„Þessi sýning var sett upp í Tjarnarbíó síðasta betur og gekk vel þar. Hún fjallar um samskipti Pólverja og Íslendinga og okkur finnst gaman að hún sé sýnd á pólsku.

Við höfum verið að reyna að höfða til þess stóra hóps Pólverja sem búa hér á Austurlandi, það er eitt af aðalmarkmiðum hátíðarinnar. Það hefur verið leitun að sýningum á erlendum málum sem höfða til þeirra hópa sem búa á Íslandi og enn frekar hér eystra,“ útskýrir Ragnhildur Ásvaldsdóttir, forstöðumaður Menningarmiðstöðvarinnar.

Listahátíðin hefur verið haldin síðustu tvö ár á vegum Menningarmiðstöðvarinnar. Í vor var hluti hennar á Eskifirði og Ragnhildur segir drauminn vera að breiða hátíðina enn frekar.

„Við höfum fengið ágætis viðbrögð við hátíðinni. Við viljum dreifa henni frekar um Austurland því Pólverjar búa um allt svæðið. Síðan viljum við helst að hún dragi að sér áhorfendur af öllu landinu.“

Leiksýningin hefst klukkan 20:00 og er aðgangur að henni ókeypis. Eftir hana verður slegið upp pólsku karaókí.

Á morgun verður síðan brúðuleikhúsnámskeið í Sláturhúsinu á Egilsstöðum klukkan 14:00. Leiðbeinandinn er pólskur en túlkað verður jafnóðum yfir á íslensku. Námskeiðið er hluti af barnamenningarhátíðinni BRAS.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.