Skip to main content
Rögnvaldur Þorgrímsson, framkvæmdastjóri Nýtingarmiðstöðvarinnar í salarkynnum hennar. Mynd: GG

Gamla sláturhúsið á Vopnafirði að umbreytast í Nýtingarmiðstöðina

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. okt 2025 14:52Uppfært 10. okt 2025 14:52

Þessa dagana er á Vopnafirði unnið að umbreytingum á fyrrum sláturhúsi Sláturhúss Vopnfirðinga í Nýtingarmiðstöð þar sem aðstaða verður fyrir þróun og vinnslu matvæla. Samstarf við Háskólann á Akureyri er líka á döfinni.

„Við erum að skipta út hurðum, loka af rými á neðri hæðinni, erum byrjuð að mála, skipulag er á leið í gegn og síðan eigum við von á heilbrigðiseftirlitinu í úttekt. Eftir það þarf væntanlega að gera einhverjar úrbætur sem við munum vinna samviskusamlega eftir.“

Þetta segir Rögnvaldur Þorgrímsson, framkvæmdastjóri Nýtingarmiðstöðvarinnar. Eftir að Sláturfélagi Vopnfirðinga var slitið í fyrra keypti Brim húsnæðið þess til að nota fyrir eigin starfsemi en líka til að efla matvælaframleiðslu á Vopnafirði með því að koma upp vottaðri vinnslu sem frumkvöðlar geta nýtt.

Fyrstu tækin komin eru í hús en verið er að leita víðar. „Við viljum vera með reykofn, niðursuðuvél og fleiri tæki til að gera tilraunir því það eru engar hugmyndir útilokaðar. Þess vegna er gott að heyra af því ef einhver situr á tækjum sem geta nýst,“ segir Rögnvaldur.

Fyrstu viðburðirnir að baki

Engin regluleg starfsemi er komin í húsið en fyrstu viðburðirnir eru að baki og fyrstu aðilarnir að koma sér fyrir. Á bæjarhátíðinni Vopnaskaki í sumar var haldinn skiptimarkaður og listsýning þar sem saga hússins var í forgrunni. Það var einnig boðið upp á tilraunakenndar sjávarafurðir, svo sem loðnubjór. Vísindamaðurinn Finnbogi Rútur Þormóðsson, prófessor emirutus í líffræði, er farinn að koma sér fyrir með rannsóknastofu. „Við höfum verið með einn og einn viðburð til að klukka fólk en stóra verkefnið er að koma þessu húsi á koppinn og það er hafið.“

Hugmyndir eru líka um þekkingarstarfsemi með námskeiðum og fyrirlestrum í húsinu. Verið er að leggja lokahönd á viljayfirlýsingu um samstarf við Háskólann á Akureyri og samstarfsyfirlýsing við Six Rivers liggur fyrir.