Skip to main content

Gámur fauk á Borgarfirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 24. des 2024 12:10Uppfært 24. des 2024 12:12

Gámur sem hýsir búnað hjólaleigu á tjaldsvæðinu á Borgarfirði eystra fauk á hliðina í hvassviðri í nótt. Yfir 40 metra hviður mældust þar.


„Það komu mjög miklir byljir hér í nótt en þetta stóð ekki lengi. Við erum með mæli hérna í þorpinu sem sýndi 42 m/s í hviðum,“ segir Björn Aðalsteinsson, íbúi á Borgarfirði.

Auk gámsins fuku til bílakerrur og kör, sem er ekki óvanalegt í hvassviðri. Björn segir að vindurinn hafi staðið að vestsuðvestan en misjafnt er milli staða í Bakkagerðisþorpi hvar strengir myndast í mismunandi vindáttum.

Ekki hafa enn borist fréttir af foktjóni annars staðar á Austurlandi en tvær gular viðvaranir voru í gildi í gær vegna hvassviðris. Mesti vindur á landinu það sem af er degi var á Fjarðarheiði klukkan 1:30 í nótt, þar mældist rúmlega 41 m/s í hviðu. Engin útköll eru skráð hjá lögreglunni vegna veðurs.

Mynd: Björn Aðalsteinsson