Gavin Morrison verður forstöðumaður Skaftfells á Seyðisfirði
„Mér finnst mjög áhugavert hversu stóru hlutverki Skaftfell gegnir fyrir Seyðisfjörð sem menningar, félagsleg og fræðslumiðstöð fyrir samfélagið og gesti,” segir Gavin Morrison, sem ráðinn hefur verið sem forstöðumaður Skaftfells - myndlistarmiðstöð Austurlands.
Gavin mun taka við stjórn miðstöðvarinnar í byrjun nóvember af Tinnu Guðmundsdóttur sem hefur verið við stjórnvölinn síðan í ársbyrjun 2012.
Gavin er skoskur en hefur síðustu ár verið búsettur í Suður-Frakklandi þar sem hann vinnur sem sýningastjóri og rithöfundur. Hann hefur unnið í samstarfi við ýmsar stofnanir víðsvegar um heiminn og má þar nefna Konunglega listaháskólann í Stokkhólmi, Listasafn Houston, Osaka samtímalistastofnunina í Japan og Háskólann í Edinborg, Skotlandi. Hann hefur töluvert verið á Seyðisfirði og var heiðursstjórnandi Skaftfells á árunum 2015-2016.
Vilja útvíkka og styrkja alþjóðleg tengsl stofunarinnar
„Stjórn Skaftfells er mikil ánægja að bjóða Gavin til starfa og er það mikill akkur fyrir stofnunina að fá til liðs við sig manneskju með svo yfirgripsmikla þekkingu á myndlistarheiminum. Auk þess að hafa mikla alþjóðlega reynslu á sviði sýningarstjórnar þá hefur Gavin reynslu af störfum með fjölmörgum íslenskum listamönnum. Stjórninni þótti áhugavert að fá manneskju með slíka reynslu til að útvíkka og styrkja alþjóðleg tengsl stofnunarinnar,” segir Auður Jörundsdóttir, stjórnarformaður Skaftfells.
Sjálfur er Gavin spenntur að hefja störf. „Þátttaka miðstöðvarinnar í margbreytilegu alþjóðlegu menningarlífi í samspili við nærumhverfið er heillandi. Sem forstöðumaður mun ég halda áfram þessari nálgun og setja saman dýnamíska dagskrá sem eflir alþjóðlegt mikilvægi miðstöðvarinnar en á sér á sama tíma rætur í staðbundnu samhengi.”