Geðheilbrigðismál: Einstaklingar í forgangshóp lenda á biðlista
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 14. jan 2025 17:42 • Uppfært 14. jan 2025 17:44
Dæmi eru um að einstaklingum, sem vísað hefur út fyrir Austurland til meðferðar vegna geðrænna vandamál, sé neitað um þjónustu og sendir til baka. Fjöldi einstaklinga sem bíður eftir geðheilbrigðisþjónustu hefur vaxið á stuttum tíma.
Þetta var meðal þess sem fram kom á málþingi um geðheilbrigðismál á Austurlandi sem haldið var í haust. Sigurlín Hrund Kjartansdóttir, teymisstjóri geðheilbrigðiskerfis Heilbrigðisstofnunar Austurlands fór þar yfir stöðuna í fjórðungnum.
Hún benti á að hvorki er fastur starfandi geðlæknir allan ársins hring né bráðageðdeild sem tekið geti á móti einstaklingum í neyðartilfellum. Þeim er því vísað til Akureyrar eða Reykjavíkur. Fram kom að reglulega gerist að fólki sem þangað hefur verið vísað frá Austurlandi sé neitað um meðferð og það sent til baka.
Þá þurfa jafnvel einstaklingar í forgangshóp stundum að gera sér að góðu að bíða eftir lausum tíma. „Það er hægt að óska eftir forgangi í gegnum teymið og það verðum við að hafa því engin bráðaþjónusta eins og geðdeild er til staðar.
Ef fólk er komið með sjálfsvígshugsanir eða byrjað að skapa sjálfsskaða eða hefur þegar gert tilraunir eða ef það kemur upp staða um heimilis- eða kynferðisofbeldi eða ef um er að ræða fjölþættan vanda ásamt fíknisjúkdómi, er veittur forgangur og reynt að bregðast við fyrr. Þetta gildir bæði um börn og fullorðna.“
Forgangur getur verið í formi símtala í upphafi en svo reynt að finna viðkomandi lausan tíma sem fyrst. „Við höfum hins vegar ekki sérstakt stöðugildi til að sinna þessu. Alltaf þegar við tökum við forgangsbeiðnum þá bíðum við eitthvað á biðlista. Þetta er erfið staða og hluti af okkar áskorunum,“ sagði Sigurlín.
Geðlæknirinn annar ekki fleirum
Geðheilbrigðisteymið var sett á laggirnar árið 2019. Á stuttum tíma hefur fjölda tilvísana fullorðinna einstaklinga í þjónustu teymisins aukist verulega, úr 170 árið 2020 í 389 árið 2023. Sigurlína segir líklegt að uppsöfnuð þörf eigi sinn þátt í mikilli aukningu. Á sama tíma hafi fjármagn til þjónustunnar verið óbreytt.
Þegar málþingið var haldið var 10-12 vikna bið í matsviðtal hjá teyminu og 40 á biðlista. Hún sagði þó hugað að líðan fólks meðan það biði. Bið eftir geðlæknismeðferð á göngudeild var um ár og 22 einstaklingar á þeim biðlista. Geðlæknir kemur austur mánaðarlega og hittir þá um 35 einstaklinga auk þess að halda sambandi þegar hann er ekki á svæðinu. Sigurlín sagði geðlæknirinn ekki anna mikið fleirum en hann sé kominn með.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.