Geðræktarmiðstöð opnar á Reyðarfirði
Seinni geðræktarmiðstöðin af tveimur á Austurlandi er að opna á Reyðarfirði. Sviðsstjóri fjölskyldusviðs Fjarðabyggðar bindur vonir við að miðstöðin verði liður í að hjálpa fólki sem glímt hefur við andleg veikindi aftur út á vinnumarkaðinn.
Geðræktarmiðstöð var opnuð á Egilsstöðum snemma í mánuðinum og opnunarathöfn haldin á Reyðarfirði viku síðar. Sú stöð hefur ekki enn tekið til starfa, verið er að klára að móta dagskrá hennar en gert er ráð fyrir að hún byrji á næstu 1-2 vikum.
„Hugmyndin kviknaði hjá okkur sem erum í stjórn Starfsendurhæfingar Austurland, þar sem eru meðal annars fulltrúar hjá félagsþjónustu sveitarfélaganna, Heilbrigðisstofnun Austurlands og fleirum.
Það hefur verið rætt um þörf á úrræði fyrir fólk með geðraskanir sem er á milli þess að vera mjög veikt eða vera fært um að komast í starfsendurhæfingu. Þarna verður athvarf fyrir fólk sem þarf stuðning samfélagsins því það kemst ekki út á vinnumarkaðinn,“ segir Laufey Þórðardóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs Fjarðabyggðar.
Jafningjastuðningur og fræðsla
„Þarna verður staður með ákveðnu utanumhaldi, annars vegar starfsfólki, hins vegar stuðningi jafningja, það er fólks sem hefur unnið sig í gegnum veikindi. Við erum ekki að finna upp hjólið heldur er þetta fyrirkomulag sem hefur reynst vel annars staðar, til dæmis á Akureyri.
Við væntum þess að þarna verði tenging við félagsþjónustuna, ráðgjafi hennar verður með viðveru vikulega. Við erum líka að ræða við félagasamtök sem hér starfa, eins og Pieta og Aflið, um að koma að þessu líka. Þannig færum við þjónustuna nær fólkinu,“ bætir hún við.
Notendur taka þátt í að móta dagskrána
Geðræktarmiðstöðin á Egilsstöðum er tekin til starfa með dagskrá. Laufey leggur áherslu á gott samstarf þeirra á milli. Þær eru stofnsettar með tilstilli 30 milljóna styrks frá Alcoa Foundation. „Við horfum á þetta sem eina stöð á tveimur stöðum þar sem notendur geta farið á milli. Við erum að taka fyrstu skrefin í því sem við reiknum með að verði langhlaup. Styrkurinn kom þessu á koppinn og síðan höfum við möguleika á að sækja um aftur ef vel gengur, sem við vonum að verði.“
Á Reyðarfirði er verið að leggja lokahönd á að móta dagskrána áður en starfsemi hefst en áhersla hefur verið lögð á að fólk sem nýtir þjónustuna sé með í ráðum. „Það kom skýrt fram í rýnihópum að fólkið vildi vera með í að móta stefnuna og hvað færi fram.“
Vonandi næsta skref út í lífið
Geðræktarmiðstöðin á Reyðarfirði verður til húsa í Melgerði 13, sal sem er í eigu Fjarðabyggðar og hefur verið notaður undir félagsstarf eldri borgara og á vegum félagsþjónustunnar. Laufey bindur vonir við að stöðin verði geðræktarstarfi á Austurlandi til framdráttar.
„Ég bind vonir við að fólk sem hefur gagn af þessum stuðningi fjölmenni. Vonandi getur einhver hluti þeirra sem mætir síðan tekið næsta skref, sem væri þá einhvers konar starfsendurhæfing.“