Skip to main content
Fyrirhugað virkjunarsvæði Geitdalsvirkjunar ef af verður en landið er að langmestu leyti enn ósnortið. Mynd Skarphéðinn G. Þórisson

Geitdalur mun fá „manngert“ yfirbragð með vatnsaflsvirkjun

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 15. okt 2025 12:39Uppfært 15. okt 2025 12:39

Skipulagsstofnun telur ljóst að áform um byggingu vatnsaflsvirkjunar í Geitdal í Múlaþingi munu hafa í för með sér verulegar ásýndarbreytingar á svæðinu. Svo miklar raunar að óraskaður dalurinn muni fá manngert yfirbragð í kjölfarið.

Stofnunin lauk síðla sumars við álit sitt um umhverfismatsskýrslu þá sem fyrirtækið Geitdalsvirkjun ehf. gerði vegna framkvæmdanna sem fyrirhugaðar eru fáist öll leyfi til. Skal virkjunin sú vera 9,9 megavött en stíflan sjálf verður staðsett vestan Hesteyrarfjalls og árleg heildarorkugeta mun verða um 56 gígavattsstundir árlega.

Ekki í samræmi við verndarmarkmið um náttúruvernd

Í rýni sinni fer Skipulagsstofnun kyrfilega yfir mat fyrirtækisins á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar en tekur jafnframt mið af umsögnum ellefu annarra stofnanna auk tíu umsagna einstaklinga, samtaka og einkafyrirtækja sem bárust á umsagnartíma.

Metur stofnunin umhverfismatið almennt vel unnið og vandað en lítill vafi geti leikið á að framkvæmdin mun hafa veruleg neikvæð áhrif á lítt snortið eða ósnortið landslag, ásýnd og víðerni sem teygi sig alla leið inn á miðhálendi Íslands og sé ekki í samræmi við verndarmarkmið laga um náttúruvernd.

„[Stofnunin] telur ljóst að vegur, stífla, stöðvarhús og miðlunarlón munu hafa í för með sér verulegar ásýndarbreytingar á svæðinu. Í stað óraskaðrar ásýndar mun Geitdalur fá manngert yfirbragð. Fossar og votlendi sem njóta sérstakrar verndar munu hverfa undir miðlunarlón og rennsli í fossum neðan stíflu minnka. Hætt er við því að upplifun þeirra sem stunda eða vilja stunda útivist á áhrifasvæði fyrirhugaðra framkvæmda og sækja í náttúrulegt umhverfi komi til með að breytast. Um leið verður skerðing á fyrrnefndu víðerni. 

Að mati Skipulagsstofnunar er fyrirhuguð framkvæmd ekki í samræmi við verndarmarkmið laga um náttúruvernd. Metur stofnunin áhrif framkvæmdarinnar á landslag, ásýnd og víðerni verulega neikvæð. Framkvæmdin hefur einnig í för með sér umfangsmikið rask á gróðri og telur Skipulagsstofnun að hún geti haft verulega neikvæð staðbundin áhrif á votlendi sem nýtur sérstakrar verndar, einkum í lónstæði.