Orkumálinn 2024

Gera gosdrykki úr íslenskum jurtum

Nípa, Gletta og Ketillaug eru nöfnin á fyrstu drykkjunum frá Könglum, sem fóru í sölu um miðjan júlí. Í þá eru notaðar íslenskar jurtir, rabarbari, skessujurt og túnfíflar.

„Við notum íslenskar jurtir ekki nógu mikið. Mig langaði til að fólki þætti eðlilegt að nota það sem í kringum okkur er, að við þurfum ekki alltaf í búðina til að kaupa krydd.

Þetta byrjaði síðan á að vinkona mín, sem alin er upp í Finnlandi, leyfði mér að smakka uppskrift þaðan. Það þróaðist síðan í að við fórum að nota íslenskar jurtir og skógarafurðir í drykki og gos. Mér finnst líka vanta gos úr íslenskum jurtum,“ segir Dagrún Drótt Valgarðsdóttir sem stendur að Könglum ásamt Brynjari Darra Sigurðarsyni Kjerúlf.

Nípa er íste úr túnfíflum, Gletta gos úr rabarbara og Ketillaug gos úr skessujurt. Dagrún segir að gerðar hafi verið tilraunir með ýmsar aðrar jurtir svo sem sigurskúf og blóðberg en líka greni og lerki. „Við ætlum ekki að fara of stórt af stað og sjá hvernig fólk tekur því sem við erum með.“

Drykkirnir hafa verið til sölu á veitingastöðum á Fljótsdalshéraði og Borgarfirði. „Þetta hefur farið mjög vel af stað. Fyrsta pökkun er nánast uppseld svo við þurfum að fara að fylla á fleiri flöskur,“ segir Dagrún.

Nöfnin á drykkjunum eru sótt í þjóðsögurnar. „Við töldum það auka gildi vörunnar að hafa sögulega skírskotum en þetta býr líka til skemmtilegar sögur á bakvið vörurnar. Stuttar útgáfur af sögunum er að finna á umbúðunum en lengri á heimasíðunni konglar.com, bæði á íslensku og ensku. Viðskiptavinum okkar, einkum þeim erlendu, hefur fundist þetta frábært,“ segir Dagrún.

Og sagan á bakvið Könglanafnið sjálft er ekki síðri. „Fljótsdælingar hafa oft verið kallaðir „könglar“ í niðrandi merkingu. Til dæmis voru með mér í bændaskólanum á Hvanneyri krakkar sem litu niður á skógrækt og kölluðu okkur Fljótsdælingana köngla. Það er samt fáránlegt, könglar eru geggjaðir, eru fræ lífsins og ég held að krakkarnir sem voru með okkur í skólanum séu nú byrjaðir að planta því þau vita hvað það er gott.“

Lengri útgáfa viðtalsins birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.