Skip to main content

Gerð göngustígs að Gufufossi boðin út

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. jan 2025 10:13Uppfært 21. jan 2025 18:42

Sveitarfélagið Múlaþing hefur óskað eftir tilboðum í gerð göngustígs upp að Gufufossi í Seyðisfirði. Stígnum er ætlað að bæta öryggi gangandi vegfarenda en sérlega vinsælt er meðal farþega skemmtiferðaskipa að ganga upp að fossinum.


Samkvæmt útboðsgögnum verður stígurinn um 3,5 km langur og er byrjunarreitur hans í miðbæ Seyðisfjarðar.

Að mestu liggur hann meðfram núverandi vegi, sem þýðir að hann verður nokkuð frá þeim vegi sem fyrirhugað er að gera með tilkomu Fjarðarheiðarganga, sem koma einmitt út undan Fjarðarheiði rétt hjá Gufufossi.

Reiknað er með að stígurinn verði upplýstur úr miðbænum og inn að Langatanga. Eins þarf að setja upp eyju á Seyðisfjarðarvegi, lýsingu og fleira þar sem stígurinn fer yfir veginn.

Miðað við útboðsgögn er verkið unnið á vegum hafnarsjóðs Múlaþings því reikningar skulu stílaðir á Hafnir Múlaþings. Tilboð verða opnuð 31. janúar. Upphaf framkvæmda miða við undirritun samninga en stígurinn á að vera tilbúinn 15. október 2025.

Stígnum er ætlað að bæta umferðaröryggi á svæðinu. Einkum þegar skemmtiferðaskip eru í höfn gengur fjöldi fólks upp að fossinum og hefur til gjarnan gert það í köntum akvegarins.

Teikning: Cowi/Múlaþing

gufufoss gongustigur teikning cowi