Gerlamengun í neysluvatni Hallormsstaðar vegna bilunar

Heilbrigðiseftirlit Austurlands (HAUST) tók í gær sýni úr neysluvatni íbúa í Hallormsstað en þar varð vart gerlamengunar í síðustu viku. Ljóst verður síðar í vikunni hvort tekist hafi að komast fyrir frekari mengun.

Reyndist um bilun í gegnumlýsingartæki að ræða en starfsfólk HEF-veitna greip skjótt til aðgerða þegar kólígerlamengun var staðfest og var skipt um gegnumlýsingartækið á föstudaginn var.

Þrátt fyrir það þurfti að bíða sýnatöku frá HAUST sem var framkvæmd í gær að því er fram kemur á vef HEF-veitna. Jafnan tekur þrjá til fjóra daga áður en þær niðurstöður liggja fyrir og á meðan er íbúum enn ráðlagt að sjóða allt sitt neysluvatn. Annars konar vatnsnotkun er hins vegar í lagi án sérstakra aðgerða.

Var þetta í annað skipti á skömmum tíma sem vart verður mengunar í neysluvatni staðarins en í lok ágúst þurfti einnig að grípa til aðgerða þegar óhreinindi fundust í vatnsbólinu.

Staðará við vatnsból Hallormsstaðar. Saur frá fólki eða blóðheitum dýrum komst í vatnsbirgðirnar í liðinni viku og gegnumlýsingarbúnaður virkaði ekki sem skyldi. Mynd HEF

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar