Gífurlegur munur á fasteigna- og brunabótamati húsanna á Seyðisfirði

Í umræðunni sem skapast hefur um hvort nauðsyn sé á því að rífa húsin sem enn standa á rýmingarsvæðinu á Seyðisfirði eða ekki vaknar spurningin um hvernig þessar eignir verða metnar. Ljóst er að það munar hundruðum milljóna kr. á fasteignamati og brunabótamati þessara eigna á heildina litið.

Austurfrétt hefur heimildir fyrir því að innan sveitarstjórnar Mulaþings sé vilji til að gera eins vel við eigendur þessara húsa og kostur er og styðjast við brunabótamatið eða a.m.k. markaðsmat á eignunum. Ofanflóðasjóður hefur hinsvegar stuðst við fasteignamat þegar kemur að kaupum á eignum eins og í tilvikum sem þessum.

Eignirnar sem hér um ræðir eru húsin þrjú sem enn standa við Fossgötuna og húsin frá og með Hafnargötu 10 og fram að 48b.

Á vefsíðu Þjóðskrár Íslands má sjá matið á þessum eignum. Á heildina litið munar yfir 400 milljónum kr. á því hvort eignirnar verði keyptar á brunabótamati eða fasteignamati. Á sumum þessara eigna er gífurlegur munur á matinu. Þannig má nefna sem dæmi að á Fossgötu 4 er fasteignamatið aðeins 6,4 milljónir kr. en brunabótamatið rúmar 32 milljónir kr. þar munar því tæpum 24 milljónum kr. Markaðsmatið á þessari eign er einhvers staðar þar á milli.

Mestu munar á dýrustu eignunum sem eru á listanum. Þannig má taka sem dæmi að fasteignamatið á Hafnargötu 10 er 19 milljónir kr. en brunabótamatið er yfir 63 milljónir kr. og munar því um 44 milljónum kr. á því hvernig eignin er metin.

Eins og fyrr segir vill sveitarstjórn Múlaþings gera eins vel og hægt er við eigendur þessara húsa. Hinsvegar kom fram í samtali Austurfréttar við Hafstein Pálsson framkvæmdastjóra Ofanflóðasjóðs um helgina að venjan hjá sjóðnum við uppkaup á eignum, í tilvikum sem þessum, sé að miða við fasteignamatið. Þetta á þó eftir að ræða og verður væntanlega m.a. rætt á aukafundi sveitarstjórnar á miðvikudag.

Greiðslur vegna tjóns skýrari

Á íbúafundi sem haldinn var milli jóla og nýárs fyrir íbúa Seyðisfjarðar kom fram að skýrar reglur gilda fyrir þá íbúa sem misstu húsnæði sitt eða urðu fyrir tjóni í skriðuföllunnum.

Hulda Ragnheiður Árnadóttir framkvæmdastjóri Náttúruhamfarasjóðs var á fundinum og það kom fram hjá henni að tjón á húsunum yrði bætt í samræmi við skyldutryggingu sem er á öllum fasteignum. Í skyldutryggingu er miðað við brunabótamat. Á móti kemur sjálfsábyrgð upp á 400.000 kr.

Fram kom í máli Huldu Ragnheiðar að matsmenn verði alla þessa viku á Seyðisfirði og í framhaldi eftir þörfum. Eigendur húsa mega eiga von á hringingum til að að bóka tíma.

Þá kom fram í máli Huldu Ragnheiðar að eigandur eða fulltrúar þeirra yrðu látnir vita um ferðir matsmanna til þess að viðkomandi fái tækifæri til að vera viðstaddur skoðunina.

Ath. Fréttin hefur verið uppfærð k. 14.30 eftir nánari upplýsingar um húsin á Hafnargötu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.