Gjaldtaka hefst líklega í Hafnarhólmann næsta sumar

Heimastjórn Borgarfjarðar eystri vill hverfa frá því að hafa aðgangseyri að Hafnarhólma valkvæðan fyrir gesti eins og nú er. Sýnt þykir að með þeim hætti megi afla mun meiri fjármuna. Það fjármagn yrði að stóru leyti hægt að nýta til að vernda og gæta hólmans en ekki síður bæta upplifun gesta enn frekar.

Hafnarhólminn er langvinsælasti áfangastaður ferðafólks á Borgarfirði eystri og reyndar einn sá vinsælasti á Austurlandi öllu en talið er að fallegir lundarnir sem gera hólmann að heimili hvert sumar hafi trekkt rúmlega 50 þúsund gesti síðasta ár.

Vorið 2023 var ákveðið að hefja skyldi gjaldtöku á svæðið en þó með þeim formerkjum að það yrði valkvætt fyrir gesti. Með öðrum orðum að gestir réðu því sjálfir hvort þeir létu fé af hendi rakna fyrir að komast í meira návígi við lundann en hægt er annars staðar á hnettinum.

Tekjur gætu talið í tugmilljónum

Aðspurður segir Eyþór Stefánsson, formaður heimastjórnarinnar, að það fyrirkomulag hafi vissulega skilað einhverjum krónum í kassann en það sé samdóma álit heimastjórnar og samtakanna Fuglavernd, sem á stóran hluta Hafnarhólmans, að bein gjaldskylda geti skilað mun hærri tekjum. Miðað við 50 þúsund gesti og 500 króna gjald geti Múlaþing og Borgfirðingar átt von á 25 milljónum króna í aukatekjur. Það umtalsvert hærri upphæð en fengist hafi með valkvæðu leiðinni hingað til.

„Það er að mínu mati betri leið en fyrirkomulagið nú. Það mun engu að síður verða valkvætt hvort gestir kjósa að leggja eitthvað af mörkum þetta sumarið en við teljum eðlilegt að frá og með sumrinu 2025 verði beinlínis gjaldskylda fyrir hvern og einn. Málið ekki komið á það stig að útfæra hvernig það yrði gert en sjálfur væri ég spenntur fyrir að hafa þetta svipað í lestunum í Danmörku þar sem ekki er beinlínis miðasala eða vörður heldur öllu frekar svona fyrirvaralaust tékk meðal gesta.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar