Góð reynsla af nýja sorpbílnum
Róbert Beck yfirmaður Gámafélagsins á Austurlandi segir að góð reynsla sé af nýja sorpbílnum sem þeir fengu í sumar. Bíllinn er notaður í þéttbýli Fljótsdalshéraðs.„Fyrir okkur er þetta fyrst og fremst vinnusparnaður því við getum farið í eina ferð í stað tveggja áður,“ segir Róbert. Bíll þessi er tveggja hólfa bíll sem losar gráu og brúnu tunnurnar á sama tíma.
Á heimsíðu Fljótsdalshéraðs er fjallað um bílinn og þar segir að lífrænn eldhúsúrgangur og almennt sorp sé því losað í sömu ferð, en hráefnunum haldið aðskildum í mismunandi hólfum. Með nýju umhverfisvænna fyrirkomulagi er dregið úr ferðum vegna sorphirðu sem leiðir af sér minni mengun og minna ónæði.
Gámafélagið var gagnrýnt síðasta vetur fyrir að standa sig ekki í stykkinu hvað sorphirðu í dreifbýlinu varðar. Aðspurður um komandi vetur segir Róbert að mikið af þessari gagnrýni hafi verið ósanngjörn því að veður og færð hafi valdið því að sorpbílar þeirra komust ekki ætíð þangað sem þeir ætluðu. Menn hafi verið sammála um að ástandið hafi batnað eftir áramótin.
„Hvað komandi vetur varðar verður að hafa í huga að við stjórnum ekki veðri og færð á starfssvæði okkar,“ segir Róbert.