Göngur geta orðið svolítið púsluspil vegna COVID

Göngur eru hafnar á Austurlandi og standa meir og minna út mánuðinn. Göngur og réttir geta orðið „svolítið púsluspil“ í ár að sögn fjallskilastjóra vegna sóttvarnareglna af völdum COVID.

Árni Jón Þórðarson á Torfastöðum er fjallskilastjóri norðan Jökulsár á Dal. Hann segist reikna með að á bilinu 25 til 30 manns fari í göngur á tveimur svæðum um helgina. Annarsvegar er um að ræða Kaldártungur í Jökulsárhlíð og hinsvegar Fjallgarðar og Háreksstaðaheiði í Jökuldalsheiði.

„Ég held að þetta verði strembið að einhverju leyti, veðurspáin framundan er ekki góð og vegna COVID reglan getur þetta orðið svolítið púsluspil almennt hjá göngumönnum,“ segir Árni Jón. „En ég á ekki von á neinum vandamálum hjá okkur enda vanur maður í hverju rúmi.“

Vegna COVID verða fjallaskálar/húsnæði aðeins opnir gangnamönnum í haust . Aðrir gestir mega ekki vera í húsnæðinu á sama tíma. Einnig skulu allir smalar hafa handspritt meðferðis. Hinsvegar er búið að rýmka aðeins nálægðarregluna inn í fjallaskálum og má hún vera einn metri á milli manna í stað tveggja ef aðstæður bjóða ekki upp á annað.

Fyrstu réttir Austanlands verða í Teigsrétt í Vopnafirði þann 6. september. Síðan er áformað að rétta í Melarétt í Fljótsdal þann 12. september.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar