„Grænir orkugarðar skapa tækifæri“

Sérfræðingur hjá Landsvirkjun segir grænan orkugarð á Reyðarfirði geta orðið lyftistöng fyrir nýsköpun á svæðinu auk þess að nýtast Íslandi í heild.

„Grænir iðngarðar skapa tækifæri og stuðla að nýsköpun því stöðugt er leitað að nýjum lausnum,“ sagði Laufey Lilja Ágústsdóttir, umhverfissérfræðingur hjá Landsvirkjun á íbúafundi á Reyðarfirði í gær.

Þar voru kynntar hugmyndir um græna orkugarða í samvinnu Landsvirkjunar, danska fjárfestingasjóðsins CIP og Fjarðabyggðar á Reyðarfirði.

Laufey Lilja útskýrði að grunnur orkugarðsins væri framleiðsla á rafeldsneyti þar sem vetni gegndi lykilhlutverki. Við framleiðslu vetnisins falli til bæði súrefni og varmi. Hugmyndin að görðunum sé að önnur fyrirtæki sjái sér hag í að nýta affallið.

„Grænir orkugarðar eru samfélag fyrirtækja sem kjósa að staðsetja sig saman. Þeir byggja á hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins þar sem fyrirtækin nýta efni sem fellur til hvert frá öðru,“ sagði Laufey Lilja.

Hún sagði margvíslegan ábata fylgja þessari hugmyndafræði. „Samkeppnishæfni eykst, til verða öruggari störf, þetta stuðlar við loftlagsáætlun Íslands því dregið er úr losun kolefnis og hæfni Íslendinga til að taka við stórum verkefnum eykst.“

Vetnið er framleitt með að nota rafmagn til að kljúfa vatn. Töluverða orku þarf til þess og útilokaði Laufey ekki að skoða þyrfti frekari orkuuppbyggingu fyrir svæðið.

Hún sagði markmið verkefnisins að kanna kosti þess að framleiða rafeldsneyti með vetni á Reyðarfirði auk þess að skoða samlegðaráhrif svo sem orkuskipti í sjávarútvegi og landflutningum og nýtingu varmans til húshitunar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.