Grafalvarleg staða hjá menningarmiðstöðinni Skaftfelli
Að öllu óbreyttu stefnir í að loka þurfi menningarmiðstöðinni Skaftfelli á Seyðisfirði í nóvember n.k. Fjárhagsvandræði eru ástæðan. Fjallað var um málið á síðasta fundi bæjarráðs. Í fundargerð kemur fram að staðan sé grafalvarleg.„Skaftfell hefur fyrir löngu sannað sig sem lykilstofnun í menningar- og fræðslustarfssemi, bæði á Austurlandi og á landsvísu. Ekki fengust 15 milljónir af fjárlögum til Skaftfells á þessu ári eins og árið áður.“ segir í fundargerð.
„Hefur það gríðarlega neikvæð áhrif á rekstrarniðurstöðu miðstöðvarinnar. Staðan er grafalvarleg og stefnir í að loka þurfi miðstöðinni 1. nóvember 2020, fáist ekki auka fjármagn.“
Ennfremur var lögð fran bókun frá menningarnefnd bæjarins þar sem segir: „Nefndin hvetur sveitarfélagið til þess að leita leiða til þess að aðstoða miðstöðina við að brúa bilið til loka árs. Mikilvægt er að fundin verði lausn á framtíðar rekstrarforsendum miðstöðvarinnar og að reksturinn standi á jöfnu við aðrar menningarmiðstöðvar í hinu nýja sveitarfélagi“.
Þá kom fram að menningarnefndin minnir á að skipa þarf nýjan fulltrúa í nýja stjórn Skaftfells eftir að nýtt sveitarfélag hefur störf. Núverandi fulltrúi Seyðisfjarðar gefur áfram kost á sér.