Grettir sterki lagður af með Jón Kjartansson - Myndir
Dráttarbáturinn Grettir sterki lagði um kvöldmat í gær af stað með fjölveiðiskipið Jón Kjartansson frá Eskifirði í togi. Ferðinni er heitið til Esbjerg í Danmörku þar sem skipið endar sína daga þar sem það verður rifið í brotajárn.Talsverður fjöldi var samankominn á bryggjunni á Reyðarfirði þegar skipin létu úr höfn þar um klukkan hálf sjö í gærkvöldi. „Það er alltaf ákveðið sjónarspil að sjá skip dregið af stað og veðrið var gott í kvöldsólinni,“ segir Baldur M. Einarsson, útgerðarstjóri Eskju.
Ferðin hefur sóst vel, um hádegi voru skipin stödd við miðlínuna milli Íslands og Færeyja. Gert er ráð fyrir að siglingin til Danmerkur taki tæpa viku. „Það hefur verið ágætt færi fyrst um senn og þau haldið 6-8 mílna meðalhraða. Svo sjáum við hvort sjórinn verði jafn sléttur alla leið.“
Jón Kjartansson var smíðaður árið 1978 og hét upphaflega Eldborg HF. Hann var keyptur til Eskifjarðar árið 1988 og fékk nafnið Hólmaborg. Árið 2006 var því breytt í Jón Kjartansson. Skipið hefur verið til sölu undanfarin ár en Eskja fékk nýjan Jón Kjartansson sumarið 2017. Jón Kjartansson SU-311 landaði síðast í maí 2019. Nýir eigendur tóku formlega við skipinu þegar landfestar höfðu verið leystar í gær.
Grettir sterki kom upphaflega austur sunnudaginn fyrir viku. Skipin voru þá tengd saman og fyrirhugað að sigla af stað. Það tafðist hins vegar því lagfæra þurfti dráttarbátinn en hann lenti í vandræðum á leiðinni austur.
Jón Kjartansson er meðal fengsælustu skipa Íslandssögunnar. Samkvæmt tölum frá Eskju hefur það fiskað 1.533.600 tonn sem kemur því í annað sætið yfir aflahæstu skip Íslandsögunnar. Í efsta sætinu er Börkur NK, eða Stóri-Börkur, sem kom til Norðfjarðar árið 1973. Það varð að Birtingi 2012 þegar nýr Börkur kom. Það lá líka bundið við bryggju á Reyðarfirði 2018-2020 en það var þá selt til Mexíkó. Árið 2016 hafði það skipt um nafn, Janus, eftir að hafa verið selt til Póllands.
Jón Kjartansson á einnig Íslandsmetið í loðnuafla á einni vertíð. Í febrúar og mars 2002 landaði það 50.978 tonnum. Það ár veiddi það alls rúm 90 þúsund tonn. „Það gekk vel á skipinu nær allan þann tíma sem það var gert út með allar lestar fullar,“ segir Baldur.
Myndir: Gunnar B. Ólafsson