Gul viðvörun á Austurlandi

Gul viðvörun vegna veðurs er gengin í gildi fyrir Austurland að Glettingi. Fjallvegir á Austurlandi eru margir lokaðir.

Viðvörunin tók gildi klukkan sjö í morgun og stendur til 13:00. Spáð er norðvestan 15-23 m/s og rigningu á láglendi. Fólk er hvatt til að ganga frá lausum munum utan dyra.

Úrkoman fellur sem snjókoma til fjalla og spillir færð. Ófært er um Möðrudalsöræfi, þungfært á Fjarðarheiði og krapi eða snjóþekja á Fagradal. Á síðastnefndu vegunum bætir enn í snjóinn og er hvasst. Þæfingur er á Breiðdalsheiði en snjóþekja á Vatnsskarði. Í Hamarsfirði er óveður.

Þegar líður á daginn snýst vindur til suðurs eða suðvestan og lægir heldur og styttir upp en þó ekki af alvöru fyrr en í kvöld.

Á Austfjörðum er búist við heldur minni úrkomu og aðeins hægari vindi, þó 13-20 m/s fram undir hádegi.

Mikil úrkoma hefur þegar fylgt veðrinu, sú mesta á landinu frá miðnætti er á Borgarfirði, 64 mm klukkan sjö í morgun. Morgunfluginu frá Reykjavík til Egilsstaða var aflýst.

Mynd úr safni eftir Ómar Bogason.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.