Skip to main content

Gul viðvörun: Stormur og hláka í suðaustanátt

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 31. jan 2025 10:15Uppfært 31. jan 2025 10:15

Veðurstofa Íslands hefur gefið út gular viðvaranir fyrir bæði austfirsku veðurspásvæðin fyrir helgina. Líkur eru á krapaflóðum á svæðinu.


Viðvörunin fyrir Austurland að Glettingi tekur gildi klukkan 19 í kvöld og gildir til 11 á morgun. Þar er búist við 15-23 m/s vindhraða með snörpum hviðum við fjöll. Þar er ekki von á úrkomu en hláku í 2-7 stiga hita. Slíkt kann að valda varasömum akstursskilyrðum, einkum þar sem blaut svell verða á vegum. Eftir hádegi á morgun verður sunnanhátt en um kvöldið kólnar og slyddar.

Á Austfjörðum tekur viðvörunin gildi klukkan 22 í kvöld og gildir líka þar til 11 á morgun. Þar er búist við talsverðri úrkomu í kvöld, jafnvel mikilli syðst á svæðinu. Rétt er að benda á að á Suðausturlandi verður á sama tíma í gildi appelsínugul viðvörun þar sem búist er við úrhelli. Fólki er bent á að hreinsa frá niðurföllum til að forðast vatnstjón. Hitafar, vindur og þróunin á morgun verða svipuð og á Austurlandi.

Samhliða þessum leysingum er talin hætt á krapaflóðum eða votum snjóflóðum. Talsverður snjór er í giljum og binding stundum takmörkuð. Nokkur snjóflóð féllu í nýsnævi í byrjun vikunnar. Mesta hættan er þar sem úrkoman verður mest.

Tekið er fram að óvissa sé í spám um nákvæmlega hvar og hvenær mesta úrkoman verður. Því er beint til íbúa að fylgjast með lækjarfarvegum þar sem snjór hefur safnast fyrir, þar getur hætta skapast hratt. Eins geta fallið aurskriður eftir leysingarnar þar sem snjó leysir hratt.

Landhelgisgæslan hefur bent á að veðurskilyrði séu með þeim hætti að sjávarhæð geti orðið hærri en sjávarfallaútreikningar geta til kynna. Eigendur skipa og báta í höfnum eru því hvattir til að huga að þeim.