Gul viðvörun vegna nýrrar haustlægðar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 03. okt 2025 09:56 • Uppfært 03. okt 2025 09:58
Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun fyrir Austfirði á morgun. Von er á afar snörpum vindhviðum við fjöll.
Viðvörunin gildir frá klukkan tvö í nótt til klukkan tíu annað kvöld. Spáð er norðvestan 18-25 m/s og staðbundnum vindhviðum við fjöll upp á 35-45 m/s.
Hvassast verður á Suðurfjörðum. Viðvörun hefur líka verið gefin út fyrir Suðausturland.
Íbúar eru hvattir til að huga að lausamunum. Afar varhugavert er að vera á ferðinni á ökutækjum sem taka á sig mikinn vind.
Ástæðan er lægð, Amy, á ferð um norðanvert Atlantshaf. Á leið úr vestri safnaði hún í sig styrk úr leifum fellibylja. Lægðin verður þó sterkari við Skotland, Færeyjar og vesturströnd Noregs en hér.