Gular viðvaranir vegna roks og rigningar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 24. sep 2025 14:44 • Uppfært 24. sep 2025 14:44
Gular viðvaranir hafa verið gefnar út fyrir veðurspásvæðin Austfirði og Austurland að Glettingi sem gilda frá fimmtudegi til laugardags. Spáð er bæði hvassviðri og mikilli rigningu sem eykur hættu á skriðuföllum.
Innan þessara veðurspásvæða er von á að úrkoman verði mest til fjalla syðst á svæðinu, eða allt að 25 mm/klst til fjalla eða á jöklum.
Samkvæmt korti frá Veðurstofunni er gert ráð fyrir rúmlega 200 mm uppsafnaðri úrkomu fram til laugardags í kringum Berufjörð og tæplega 200 mm norður undir Reyðarfjörð. Á láglendi frá Eskifirði suður til Álftafjarðar er búist við 100 mm uppsafnaðri úrkomu. Rétt er að taka fram að á Suðuausturlandi er búist við enn meiri úrkomu.
Úrkomuviðvörun tekur gildi fyrir Austfirði klukkan 18:00 á morgun og gildir sem stendur til klukkan þrjú á föstudag. Varað er við að þetta geti valdið staðbundnum flóðum með truflunum á samgöngum.
Þetta eykur líka líkurnar á grjóthruni og aurskriðum. Varað er við ferðalögum undir bröttum hlíðum eða í kringum ár- og lækjafarvegi. Vöktun hefur verið aukin á ofanflóðadeild Veðurstofunnar. Fólk er hvatt til að tilkynna henni um hvers konar skriðuföll.
Vindviðvörun gildir á föstudag frá klukkan fimm að morgni til sjö að kvöldi. Á Austurlandi er aðeins gefin út vindviðvörun, sem gildir frá klukkan sex að morgni föstudags til eitt aðfaranótt laugardags. Á báðum stöðum er varað við suðaustan og sunnan 15-23 m/s með snörpum vindhviðum til fjalla. Það getur verið varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig vind. Fólk er hvatt til að tryggja lausamuni.
Mynd: Lögreglan á Austurlandi