Orkumálinn 2024

Hægt að kjósa hvar sem er innan kjördæmis á kjördag

Ekki er skylda fyrir kjósanda að kjósa í sinni heimadeild á kjördag. Hann getur mætt á hvaða kjörstað sem er innan síns kjördæmis.

„Þessi heimild hefur verið til staðar lengi en það eru ekki margir sem hafa nýtt sér þetta. Þó hefur verið nokkuð um þetta hér í Fjarðabyggð, við erum með marga kjörstaði og mikið af fólki sem fer á milli.

Þetta hafa því verið 20-30 atkvæði í hverjum kosningum,“ segir Gísli M. Auðbergsson, formaður kjörstjórnar í Fjarðabyggð.

Fyrirkomulagið virkar í grófum dráttum þannig að kjósandi, sem til dæmis býr á Egilsstöðum, mætir á kjörstað á Eskifirði eða jafnvel Akureyri. Hann segir starfsmönnum þar hvar hann býr og skrifar undir eyðublað þar sem hann afsalar sér réttinum til að kjósa í sinni heimakjördeild, gegn því að fá að kjósa þar sem hann er.

Yfirlýsingin er vottuð af kjörstjórn á staðnum og send á kjörstjórn í heimakjördeildinni sem vottar að kjósandinn hafi ekki fyrr um daginn kosið í sinni heimabyggð. Þegar sú staðfesting liggur fyrir fær kjósandinn atkvæðisseðil sem hann fyllir út og skilar í kjörkassa þar sem hann er. Þetta er þó háð því að sú kjörfundur í heimadeild kjósandans standi enn yfir.

Þeir fyrirhyggjusömustu geta verið búnir að hafa samband við sína kjörstjórn og biðja um að vera færðir í aðra kjördeild, en að sögn Gísla er það afar sjaldgæft.

Þessi heimild er virk, þótt kjósandi hafi kosið utankjörfundar, enda er það svo að kjósandi getur alltaf kosið á kjörfundi þótt hann hafi greitt atkvæði utankjörfundar. Þegar kjörfundi lýkur eru utankjörfundaratkvæði yfirfarin og atkvæði kjósanda, sem mætt hefur á kjörstað, eytt.

Gísli kveðst sjá fyrir sér að þetta verði auðveldara í framtíðinni með rafrænni kjörskrá, en heimild um hana er að finna í nýjum kosningalögum sem taka gildi um næstu áramót.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.