Hæpið að hreindýraveiðikvótinn náist

Hæpið er að öll þau hreindýr, sem heimilt er að veiða í ár, verði veidd. Veiðimenn voru seinir til auk þess sem stór dýra hefur haldið til á griðlandi við Snæfelli þar sem veiðar eru óheimilar.

„Veiðar hafa tekið kipp síðustu vikuna. Veiðimenn voru lengi af stað, sem er ekki nýtt, en veiðin var 30% minni framan af samanborið við síðustu ár,“ segir Jóhann G. Gunnarsson, sérfræðingur í hreindýraveiðum hjá Umhverfisstofnun.

Nýjar veiðitölur eru gefnar út vikulega og verða teknar út eftir daginn í dag. Jóhann kvaðst efast um að í lok dags verði búið að fella 900 dýr en á sama tíma í fyrra var búið að fella 1010 dýr. Þó ber að hafa í huga að kvótinn er rúmlega 100 dýrum minni, 1220 nú samanborið við 1325 í fyrra.

Þetta þýðir þó að fjórðungur kvótans er enn óveiddur þegar tekið er að styttast í veiðitímanum. Þannig er eftir að veiða 60 tarfa af kvótanum en veiðum á þeim lýkur næsta miðvikudag 15. september. „Það er ekki víst að takist ná þeim kvóta,“ segir Jóhann. Kýrnar má veiða til 20. september en góður gang þarf í veiðarnar til að það takist.

Erfiðleikar á svæði 2

Staðan er mismunandi eftir svæðum og er hvað mest eftir á kvótanum á stærsta svæðinu, svæði 2 sem nær yfir Fljótsdal og hluta Fljótsdalshéraðs. Stór hluti veiðihjarðarinnar hefur haldið sig á griðlandi við Snæfell, innan Vatnajökulsþjóðgarðs, þar sem veiðar eru óheimilar.

„Það hefur verið slegið á að þar séu á fjórða hundrað dýr. Það hefur veruleg áhrif því úti á Fljótsdalsheiði hefur ekki verið dýr nema dag og dag. Á Hallormsstaðahálsi, Fljótsdalsheiði og Fellaheiði, þar sem alla jafna eru tarfar á veiðitímanum, hefur verið svo til tarfalaust,“ segir Jóhann.

Erfitt er að slá föstu af hverju dýrin halda sig innan griðlandsins. Mögulega átta þau sig á að þau fá frið þar og fara því ekki neitt en eins hefur verið afar hlýtt í veðri og sunnanáttir ríkjandi sem þýðir að dýrin eru rólegri inn við jökulinn. Jóhann bendir á að þótt einhver dýr fari út af svæðinu við slíkar aðstæður þá fari þau til baka aftur því utan friðlandsins sé mikil ásókn veiðimanna.

Reynt að færa á milli

Reynt hefur verið að bregðast við stöðunni með að færa veiðikvóta milli svæða eftir því sem upplýsingar voru fyrir hendi um almenna færslu dýra milli svæða. „Það er samt ekki hægt að flytja heilan kúakvóta á annað svæði. Þess vegna verður trúlega töluvert eftir af óveiddum dýrum á svæði 2.“

Jóhann segir veiðina almennt hafa gengið vel á öðrum svæðum. Sunnar er þó nokkuð um óveidd dýr, til dæmis um helmingur kúnna á svæði 7 sem er gamli Djúpavogshreppur. Þar hafa dýrin haldið sig ofar í fjöllunum í hlýindunum í sumar þannig erfiðra og tímafrekara er að veiða þau.

Á syðstu svæðunum, 8 og 9 í Hornafirði, er veiði heimil í nóvember. Mögulegt er að færa hluta kvótans fram til þess tíma en það er vandkvæðum bundið.

Vont að fá leyfin inn seint

Þekkt er að álag í veiðinni eykst þegar kemur fram í september, en þekkt er að veiðimenn komi austur á land til að veiða gæsir og hreindýr í sömu ferðinni. Einhverjir veiðimenn komast ekki og er þá reynt að úthluta þeirra leyfum aftur en það er ekki einfalt.

„Einhverjir hafa skilað inn leyfum en það er ekki gott að koma þeim út. Þótt veiðimenn vilji fara fá þeir ekki endilega leiðsögumenn. Leiðsögumenn bóka veiðimenn á ákveðna daga og eiga ekki auðvelt með að breyta því. Það hefur líka áhrif að þótt um 120 einstaklingar séu með leiðsöguréttindi þá hvílir þunginn á innan við helmingnum, mest þeim sem búa á svæðinu. Þess vegna er vont að fá leyfi inn svona seint.“

En dýrin sem veiðast virðast ágætlega haldin. „Mér skilst þau séu mjög væn. Það hafa veiðst nokkrir þungir tarfar,“ segir Jóhann.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.