Hafa áhyggjur af Atlantshafslaxinum

Atlantshafslaxinn er í mikilli hættu samkvæmt verkefninu Six Rivers Project en það kom fram á ráðstefnu sem verkefnið hélt í vikunni. Verkefnið hefur undanfarin tvö ár rannsakað Atlantshafslaxinn ásamt því að rannsaka vistkerfið í kringum veiðiár á Norðausturlandi.

Gripið hefur verið til aðgerða til að vernda Atlantshafslaxinn í veiðiám bæði með því að planta frjóvguðum eggjum í veiðiár sem og gríðarlegt magn af trjám hefur verið sett við árbakka til að efla vistkerfið í kringum árnar. Bæði þessi verkefni munu halda áfram auk rannsókna og eftirlits með ánum.

Telur Atlantshafslaxinn í útrýmingarhættu
Verkefnið Six Rivers Project, sem leitt er af auðkýfingnum Jim Ratcliffe, hélt ráðstefnu um verndun Atlantshafslaxins í vikunni á Hilton Reykjavík Nordica. Á ráðstefnunni komu fram fjórtán fræðimenn frá mörgum löndum og ræddu m.a. niðurstöður úr rannsóknum á Atlantshafslaxi í veiðiám á Norðausturland og flest allt sem við kemur veiðiám og villtum laxi.


Í framsögu vísindamannanna á ráðstefnunni kom fram að Atlantshafslaxinn er víða í mikilli hættu, og vísbendingar um að sú þróun sé einnig að eiga sér stað hérlendis. Kom fram að stofninn hafi hnignað stórkostlega á síðustu árum. Yfirlýst stefna Six Rivers Project er að snúa þeirri þróun við áður en það verður um seinan. Jim Ratcliffe segist þó ekki lítast á blikuna og var ómyrkur í máli í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 í vikunni þegar hann sagði. „Á því leikur enginn vafi að Norður-Atlantshafslaxinn er á leið til útrýmingar […] Því allar fréttir sem við sjáum núna eru slæmar fréttir.“

Segja nauðsynlegt að hafa eftirlit með ánum
Six Rivers Project ætlar að grípa til aðgerðar til að sporna við þeirri neikvæðu þróun sem er að eiga sér stað og reyna að fjölga í Atlantshafslaxastofninum í ánum Selá, Hofsá, Sunnudalsá, Miðfjarðará, Tungulæk og Vesturdalsá en allar eru þær á landsvæði í eigu Ratcliffe.


Fyrsta skrefið í átt að því að snúa þróuninni við segir Six Rivers Project vera að skilja stöðu mála og leggja áherslu á rannsóknir á svæðinu. Doktorsnemar í Imperial College í London hafa m.a. komið að rannsóknum í ánum til að auka skilning á þeim. Í erindi doktorsnemans Sammi Lai sem rannsakað hefur vistkerfið í Vesturdalsá kom fram að ekki sé síður mikilvægt að rannsaka árnar en laxastofninn sjálfan til að fá skilning á því sem er að gerast. Í ljós hefur komið að fæðan í ánum er fremur takmörkuð.


Guy Woodward, prófessor við Imperial College, sagði að þær rannsóknir og tölfræðiupplýsingar sem hljótast á vöktun á ám í gegnum Six Rivers Project ásamt því vísindamódeli sem verið er að hanna í tengslum við þær rannsóknir muni skipta sköpum í því að spá fyrir um framtíð Atlantshafslaxastofnsins. Í því samhengi var nokkuð rætt um hnúðlax en fjölgun þeirra í ám hérlendis hefur verið gríðarleg á undanförnu. Guy sagði að mikilvægt væri að hafa áfram eftirlit með ánum og halda utan um tölfræðigögn til þess að fylgjast með þróuninni og hvaða áhrif hnúðlax mun hafa á Atlantshafslaxastofninn en ekki liggur ljóst fyrir hver áhrifin munu nákvæmlega verða.


Í tengslum við þessar rannsóknir nefndi Guy framþróun sem er að eiga sér stað í sýnatökum úr ám þar sem hægt verði að greina tegundir í ám á einfaldari hátt með qPCR tækni sem notuð hefur verið í sýnatöku fyrir Covid-19.

Reyna að hreyfa við vistkerfinu
Gripið hefur verið til ýmis konar ráðstafana til þess að viðhalda stofninum í ám Ratcliffes á Norðurlandi eystra. Nokkuð strangar veiðireglur eru í ánum; þar sem skylda er að sleppa, veiðin takmörkuð og aðeins má veiða með leiðsögumanni svo reglum sé fylgt svo dæmi séu tekin.


Hafin er vinna við að planta frjóvguðum eggjum í árnar í von um að fjölga í stofninum. Síðla árs 2019 var um 200 þúsund eggjum komið fyrir í Selá með aðstoð sérfræðinga. Stefnt er að því að halda því verkefni áfram og planta um milljón eggjum árlega á vegum Six Rivers Project.


Six River Project leggur einnig áherslu á að vegna þess að fæðan í ánum hefur reynst takmörkuðu þarf að ýta aðeins við vistkerfinu. Til að auka lífmassann í ánum er farin af stað vinna við trjárækt við árnar. Í fyrrasumar voru settar niður um tíu þúsund plöntur sem flestar eiga upptök sín hérlendis, að langstærstum hluta birki en einnig reyniviður, víðir og elri. Þessu verkefni á að halda áfram og planta á frekar á svæðinu. Með þessu er vonast eftir að fæðan aukist fyrir laxinn.


Byggðir hafa verið laxastigar í ánum en það er gert til þess að laxinn geti komist á svæði í ánum sem annars væru honum óaðgengilegir. Six Rivers Project hefur nú þegar byggt fjölda laxastiga á Norðausturlandi og ætlar sér að halda því verkefni áfram. Hafa stigarnir undanfarið verið gerðir með því að eiga við berggrunn en Six Rivers Project segir að við það verði laxastiginn náttúrulegri fyrir laxinn.


Framundan eru fleiri rannsóknir á vegum Six Rivers Project. Líkur eru á að fuglar hafi meiri áhrif á stofninn en áður var talið. Þá vakna upp spurningar varðandi hlýnun jarðar. Hvaða áhrif mun það hafa á stofninn svo eitthvað sé nefnt. Verkefnið ætlar sér að halda árlega ráðstefnu til þess að fræðimenn geti komið saman og rætt málefni Atlantshafslaxins.

Mynd: Guy Woodward, prófessor við Imperial College í London heldur erindi. Ljósm: MummuLú.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.