Skip to main content

Hafrafellið aflahæsti báturinn í sínum flokki síðasta ár

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 24. feb 2025 10:26Uppfært 24. feb 2025 10:28

Líkt og fyrri ár reyndist 2024 gjöfult fyrir línubáta Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði og enn eitt árið sem báðir bátar þeirra veiða yfir tvö þúsund tonn. Hafrafellið aflahæst allra en systurbáturinn Sandfell ekki langt undan.

Segja má að Sandfell hafi nokkuð einokað efsta sæti á aflalistum línubáta yfir 21 tonni síðustu árin en skipverjarnir á þeim bát veitt hvað mest allra allt aftur til ársins 2019. Þar á meðal eitt ár þegar heildaraflinn náði vel yfir 2600 tonnum. Hafrafellsmenn hafa sannarlega veitt þeim mikla samkeppni og náð öðru eða þriðja sætinu á listum Aflafrétta aftur til ársins 2020. Á síðasta ári lönduðu Hafrafellsmenn alls 2372 tonnum en á Sandfellinu enduðu menn árið með 2019 tonn.

Engin tilviljun

Eðlilega er útgerðin afar ánægð með góðan hlut línubáta sinna ár eftir ár en útgerðarstjórinn, Kjartan Reynisson, segir góðan árangur ekki vera neina tilviljun.

„Það má segja að við höfum haft aðeins öðruvísi nálgun eða aðferðarfræði varðandi línubátana okkar en kannski hefur almennt verið raunin hjá öðrum. Þegar við kaupum Sandfellið þá vissi ég nánast ekki neitt um hvað við værum að fara út í svo ég ákvað að prófa að nota sömu aðferðarfræðina og við gerum í rekstri stærri skipana hjá fyrirtækinu. Við vorum fljótir að átta okkur á varðandi línuveiðar að gæði beitunnar væri mjög stór þáttur og höfum síðan búið til okkar eigin beitu og vandað okkur við það. Flestir eru að beita með síld en síld er ekki bara síld. Hún þarf að vera ný og fersk og með réttu fituinnihaldi og margir slíkir þættir sem skipta hér máli.“

Fyrirbyggjandi viðhald

Aðrir mikivægir þættir í velheppnuðum veiðum ár eftir ár segir Kjartan vera bæði að skera niður þann tíma sem skipverjar þurfa að eyða í landi á milli túra en ekki síður að sinna viðhaldi á tækjum og vélum eins vel og skipulega og kostur er.

„Í svona beitningarvélabátum er töluvert mikið af búnaði. Það getur verið tímafrekt að yfirfara hann allan og fá til þess mann eða taka bátinn upp á land til að hreinsa í þeim botninn. Þegar um er að ræða stærri skip eins og togara þá safna menn öllum svona verkþáttum í einn tímapunkt. Skipin send í slipp og þar er unnið eins mikið og hægt er að fyrirbyggjandi viðhaldi. Þannig tekst að koma í veg fyrir að frátafirnar verði of miklar. Þetta höfum við gert lengi og ég tekið eftir að slíkt hefur verið að ryðja sér til rúms hjá öðrum líka.“

Tími er peningar

Ólíkt því sem ýmsir aðrir aðilar gera þurfa áhafnarmeðlimir Sandfells og Hafrafells ekki að eyða jafn miklum tíma í landi eftir túr því flutningabíll með glænýja beitu bíður þeirra á bryggjunni hvar svo sem skipstjórarnir ákveða að halda í land. Þeir aðstoðaðir við löndun sem tekur mun skemmri tíma en ella svo báturinn kemst fyrir vikið fyrr út aftur.

„Sumir eru bundnir við að landa í sinni heimahöfn því þar bíður ný beita en þar sem við erum með hana tilbúna í flutningabíl geta skipstjórarnir ákveðið sjálfir hvar skal landa og yfirleitt er það í allra næstu höfn frá miðunum. Þar erum við svo tilbúnir með afþýdda nýja beitu svo skipverjar þurfi ekki að eyða tíma í að bjástra við slíkt strax við komu í land heldur geta beinlínis nýtt tímann til að taka sér hvíld. Við tökum auðvitað aflann líka og höldum rakleitt með hann í vinnslu. Þannig að segja má að velgengnin sé afleiðing af mörgum mismunandi þáttum.“