Halda uppi þjónustu þótt sumarfólk skorti

Sumarstarfsfólk vantar í ýmsar stöður innan Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Framkvæmdastjóri mannauðs hjá stofnuninni segir stöðuna brothætta þótt til þessa hafi gengið þokkalega að halda uppi þjónustunni.

„Við hjá HSA höfum ekki farið varhluta af því, frekar en aðrar heilbrigðisstofnanir, að okkur vantar fólk til starfa. Um allt land vantar hjúkrunarfræðinga og við finnum vel fyrir því en læknamönnun er þokkaleg hér.

Okkur vantar sumarstarfsfólk í ýmsar stöður víðsvegar um stofnunina. Við höfum þurft að hliðra til verkefnum en reynum okkar ýtrasta til að veita eins góða þjónustu og mögulegt er við þær aðstæður. Staðan er hins vegar brothætt,“ segir Þórarna Gró Friðjónsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs hjá HSA.

Almennt hefur ekki þurft að loka einingum, utan Stöðvarfjarðar þar sem lokað er vegna sumarleyfa frá 11. júní til 14. júlí. Þetta hefur meðal annars verið gert með því að færa starfsfólk milli starfsstöðva eða bæta við sig vinnu.

Þórarna segir að reynt sé eftir fremsta megni að kalla fólk ekki inn úr sumarfríum enda mikið lagt upp úr að starfsfólk geti tekið sín sumarfrí. Við sumarleyfi og skort á afleysingafólki bætist við fjölgun Covid-19 tilfella.

Þórarna segir ástæðuna fyrir skortinum líklega margþætta, til dæmis almennan skort á ákveðnum heilbrigðisstarfsstéttum, vinnuframboð sé mikið og skortur á húsnæði.  

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.