Orkumálinn 2024

Kynna niðurstöður vindorkuferðar fyrir íbúum Fljótsdals

„Ekki reyndist unnt að fá tæmandi upplýsingar um greiðslur til landeigenda eða nákvæman hlut sveitarfélags vegna leigu lands undir vindorkugarða en þó kom fram að árleg greiðsla fyrir hverja meðalstóra vindmyllu gæti verið kringum eina millljón króna.“

Þetta er meðal þess sem fram kom í kynningarferð vegna vindorkugarða sem landeigendur og hluti sveitarstjórnar í Fljótsdal sóttu á Spáni á dögunum en nú skal deila niðurstöðum úr ferðinni með íbúum dalsins á þriðjudaginn kemur í Végarði.

Sem kunnugt ritaði Fljótsdalshreppur fyrr á árinu undir viljayfirlýsingu við fyrirtækið CIP (Copenhagen Infrastructure Partners) um samstarf við hugsanlega uppbyggingu og rekstur vindorkuvers en það er CIP sem sjá skal fyrirhuguðum grænum orkugarði á Reyðarfirði fyrir rafmagni.

CIP rekur slíka vindorkugarða víða um heiminn og nokkrir landeigendur auk forsvarsmanna hreppsins heimsóttu einn slíkan nálægt borginni Zaragoza á Spáni nýverið. Þar áttu þeir meðal annars viðræður við sveitarstjórnarfólk á svæðinu til að fá gleggri upplýsingar um hvernig kaupin á eyrinni ganga fyrir sig vegna uppsetningar og keyrslu vindorkuvera þar í landi.

Meðal annars fengust upplýsingar um að vindmyllur þurfa minnst 500 metra fjarlægð frá íbúðabyggð til að valda ekki ónæði vegna hávaða. Þörf er á mikilli vegagerð samhliða því að reisa vindmyllur. Vegir til og frá þurfa  að lágmarki að vera níu metra breiðir og þola þungaflutninga, athafnasvæði hverrar vindmyllu þarf að vera um þúsund fermetrar og umfangsmikil jarðvegsskipti þarf fyrir hverja og eina myllu svo fátt sé nefnt.

Einn landeigenda, Gísli Örn Guðmundsson, fjallar nánar um ferðina sjálfa á kynningarfundinum á þriðjudaginn kemur en þar verður líka kynnt stöðumat á Orkugörðum Austurlands. Þá mun lögfræðingur hreppsins fara yfir sjónarmið Fljótsdalshéraðs vegna fyrirhugaðra vindorkulaga stjórnvalda.

Hópurinn í umræddri ferð en Spánverjar eru mjög framarlega í vindorku á evrópska vísu. Lög eru þó mjög misjöfn milli landa í Evrópu. Mynd Helgi Gíslason

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.