Halla Hrund líka efst á Austurlandi
Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri, mælist nú með mest fylgi frambjóðenda til forseta Íslands, á Austurlandi sem á landinu öllu.Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu sem gerð var í síðustu viku og birt í morgun. Að baki niðurstöðunum fyrir Austurland eru 34 atkvæði.
Halla Hrund mælist nú með 30,8% og tvöfaldar þar með fylgi sitt í fjórðungnum. Hún sækir það að miklu leyti til Katrínar Jakobsdóttur sem fer niður í 11,5%, þriðjung þess sem hún hafði fyrir viku. Það er versta útkoma hennar.
Baldur Þórhallsson bætir einnig við sig, fer í 30,1%, sem er hans besti árangur miðað við landshlutana. Jón Gnarr er þriðji en missir aðeins fylgi, fer niður í 12,8%, sem hans næst versta staða. Halla Tómasdóttir fær 1,4% sem er hennar versta útkoma þegar horft er á landshlutana.
Þá vekur sérstaka athygli að aðrir frambjóðendur mælast með 13,4%, sem er það langmesta sem safnast á þá. Ekki er nánar greint hvernig það fylgi skiptist.