Tekist á í bæjarráði Fjarðabyggðar vegna breytinga á leikskólagjöldum
Fulltrúar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í bæjarráði Fjarðabyggðar samþykktu fyrr í vikunni töluverðar breytingar á leikskólagjöldum sem taka eiga gildi þann 1. mars á nýju ári. Fulltrúi Fjarðalistans segir breytingarnar geta þýtt vel yfir 60% gjaldhækkun fyrir foreldra.
Bæjarstjórn mun að líkindum samþykkja endanlega breytingarnar á fundi sínum síðdegis en þær komu fullmótaðar úr fjölskylduráði í síðustu viku. Breytingar þessar eru nokkuð viðamiklar og eru afrakstur vinnu sérstaks starfshóps sveitarfélagsins frá því í haust.
Í allra einfaldasta formi er verið að lækka kostnað foreldra fyrir sex tíma vistun um 30% en þurfi foreldrar fulla vistun hækka gjöldin þó deilt sé um hve mikið sú hækkun sé. Því til viðbótar eru tekjutengdir afslættir foreldra hækkaðir verulega, teknir verða upp sérstakir skráningardagar til að auka sveigjanleika starfsfólks og foreldra og þá verður frístundastyrkur barnanna hækkaður um átta þúsund krónur.
Bregðast við álagi og eilífum ummönnunarvanda
Með breytingunum skal brugðist við ýmsum áskorunum í leikskólastarfi Fjarðabyggðar sem snúast að mestu um álag á starfsfólk og almennan mönnunarvanda í skólunum. Með breyttu fyrirkomulagi dragi úr álagi starfsfólks, fagleg vinnubrögð tryggð og meiri stöðugleiki í mönnun ætti að nást í kjölfarið.
Létu Ragnar Sigurðsson, Sjálfstæðisflokki, og Jón Björn Hákonarson, Framsóknarflokki, bóka sérstaklega á fundi bæjarráðs vegna andmæla Stefáns Þórs Eysteinssonar, Fjarðalistanum, að:
„Núverandi meirihluti er almennt að leggja til að gjaldskrár hækki um 2,5% í gjaldskrám sem snúa að barnafjölskyldum. Önnur sveitarfélög er almennt með að minnsta kosti 3,5% gjaldskrárhækkanir og á það einnig við um þau sveitarfélög þar sem framboð sem fulltrúar Fjarðalistans tilheyra eru við stjórnvölinn. Við viljum jafnframt ítreka að breytingar þessar eru gerðar til að tryggja að okkar góðu leikskólar verði áfram sterkar menntastofnanir og um leið góðir og eftirsóttir vinnustaðir.“
Sjálfur lét Stefán bóka í kjölfarið að „þó að tekjutengingar og lækkun vistunargjalda fyrir 6 tíma vistun séu jákvæðar breytingar, vekjum við athygli á því að heildarálögur á fjölskyldur, sérstaklega þær sem nýta sér fulla vistun vegna vinnu, aukast umtalsvert. Þetta skapar aukið fjárhagslegt álag á þá hópa sem þegar glíma við mikil mánaðarleg útgjöld vegna leikskólagjalda.“
40 til 66% hækkun?
Aðspurður um hvernig Stefán komist að þeirri niðurstöðu að hér sé um að ræða tugprósenta hækkun leikskólagjaldanna bendir hann á að stór meirihluti foreldra barna í leikskólunum hafi börn sín þar í fullri vistun. Ekki af því að þau endilega kjósi það heldur hafi þau ekki tök á öðru.
„Ef við horfum á fulla leikskólavistun, átta og hálfan tíma, þá er sá einstaklingur að borga að lágmarki 46% hærri gjöld. Það er vegna þess að þeir eru að hækka gjöldin fyrir átta tímana upp í 42 þúsund krónur. Ef þú vilt eða þarf að mæta með barnið fyrir átta á morgnana þá greiðir fólk nú 10 þúsund krónur á mánuði en það gjald var áður 2.500 krónur. Ef þú þarft að hafa barnið aðeins lengur, framyfir klukkan 16 á daginn þá kostar það nú aukalega 5 þúsund krónur. Þetta þýðir að fyrir einstakling með barnið í átta og hálfs tíma vistun greiðir viðkomandi 57 þúsund bara í dvalargjaldið en þá er fæðisgjaldið utan við. Allt þetta er svo fyrir utan skráningardagana. Það búið að bæta við 20 skráningardögum og ef fólk vill hafa barnið á leikskóla á þeim dögum þá þarf að greiða 5 þúsund krónur per dag. Sem þýðir að ef foreldrar þurfa að nýta sér alla skráningardagana þá eru þetta 100 þúsund krónur aukalega.
Starfsgreinafélag gerir athugasemdir
Á vef Starfsgreinafélagsins AFLs er þessi breyting sveitarfélagsins harðlega gagnrýnd enda séu tækifæri foreldra til að bregðast við þessum breytingum afar mismunandi.
„Margir geta unnið heiman frá sér einstaka daga í samkomulagi við launagreiðanda. Sumir eiga sér gott bakland – afa og ömmur og ættingja sem mögulega eru komnir af vinnumarkaði og hlaupa undir bagga.
En fyrir aðra er ástandið alvarlegra; fiskvinnslustarfsmaður eða starfsmaður á lyftara taka ekki börn með sér í vinnuna né vinna heiman frá sér. Starfsmaður á bráðadeild á sjúkrahúsi tekur ekki með sér barn í vinnuna eða stekkur úr vinnu til að sækja barnið sitt af því að leikskóladeildin er illa mönnuð – því að öllum líkindum er bráðadeildin ekkert betur mönnuð en þar stendur fólk samt og sinnir sínum verkum. Launafólk af erlendum uppruna á oft lítið bakland hér á landi og það eru engar ömmur eða afar í næsta húsi sem geta sótt á leikskólann eða sinnt börnunum á meðan leikskólastarfsmenn halda fundi.“
Erfitt hefur reynst að fullmanna leikskóla Fjarðabyggðar um langa hríð sem þýðir meira álag á það starfsfólk sem fyrir er. Reyna skal að ráða bót þar á með breytingunum. Mynd Fjarðabyggð