Háskólanám í iðnaðartæknifræði hefjist á Austurlandi haustið 2022

Samstarfssamningur milli menntamálaráðuneytis og Austurbrúar um undirbúning stofnunar háskólaútibús og kennslu á háskólastigi á Austurlandi var undirritaður á Reyðarfirði á laugardag. Markmið samningsins er að tryggja áframhaldandi uppbyggingu þekkingarsamfélags á Austurlandi. 


„Það eru sterkir grunnatvinnuvegir á Austurlandi í sjávarútvegi, áliðnaði og ýmsum verk- og tæknigreinum. Á þeim innviðum verður byggt í þessu verkefni sem vonir standa til að muni efla samfélög og atvinnulíf í fjórðungnum. Ég fagna samvinnu við sveitarfélögin á Austurlandi sem standa saman að í þessu verkefni," segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra í tilkynningu.

Þar segir að við skipulag háskólaútibúsins verði horft til þarfa og styrkleika atvinnulífs á Austurlandi. Í framhaldi af námi við frumgreinadeild er fyrirhugað að boðið verði upp á grunnnám í hagnýtri iðnaðartæknifræði til B.Sc. gráðu, þriggja og hálfs árs nám til alls 210 ECTS eininga. Sem stendur er ekki boðið upp á tæknifræðinám utan höfuðborgarsvæðisins. Stefnt er að kennsla hefjist haustið 2022.

Gert er ráð fyrir að frumgreinadeild taki til starfa haustið 2021 og þá verði jafnframt ráðnir kennarar og starfsfólk til að undirbúa háskólakennsluna. Á næstunni stendur til að mynda stýrihóp með fulltrúum ráðuneytisis, ásamt öðrum helstu hagaðilum auk þess sem verkefnastjóri verði ráðinn.

Einar Már Sigurðarson formaður Austurbrúar, sambands sveitarfélaga á Austurlandi, og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra undirrituðu samninginn.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.